13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Jörundur Brynjólfsson:

Þó að ég hafi í sjálfu sér ekkert við það að athuga, að málinu verði vísað til fjhn., enda þótt ég eigi sæti í allshn., sem hefur haft málið til meðferðar, legg ég á móti því og vænti, að hv. deild athugi vel alla málavöxtu, áður en málinu er vísað til annarrar nefndar. Þó að slíkt hafi komið fyrir, þá hefur það verið undir alveg sérstökum kringumstæðum. Ef fara ætti út á þá braut að vísa málum úr einni nefnd í aðra, gæti afgreiðsla mála hér á Alþingi orðið nokkuð tafsöm, enda hefur sú aðferð alls ekki verið viðhöfð.