18.03.1946
Neðri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Einar Olgeirsson:

Eins og formaður hefur skýrt frá, var rætt um þetta mál í n. Formaður er ekki mættur, svo að ég býst ekki við, að nein skýrsla komi frá honum. Það náðist ekki samkomulag í fjhn. um þær till., sem komu fram. Þess vegna mun ég leggja fram hér till. Í fyrsta lagi legg ég til, að í stað þess að frv. fjallar eingöngu um gistihúsbyggingu í Reykjavík yrði það um gistihúsbyggingar almennt. Yrði aukin heimild ríkisstj. með þessu frv., til þess að hún hefði nægilegt fé til umráða til að hefjast handa um gistihúsbyggingar um landið yfirleitt. Ég álít, að það sé verið að skipuleggja nýjan atvinnuveg á okkar landi, sem ætti að gera einn af okkar aðalatvinnuvegum, þ. e. með móttöku ferðamanna og ferðalögum um landið, þar sem svo hagar til, að náttúrufegurð er svo mikil hér á landi og annað, sem ferðamenn hafa gaman af að sjá. Ætti því að vera hægt að auka ferðamannastrauminn svo, að hann yrði verulegur liður í atvinnulífi okkar. En eins og stendur vantar tilfinnanlega byggingar hjá okkur, landið er lítt byggt, og þó miklu minna þegar núverandi kynslóð tók við. Er enn miklu Grettistaki að lyfta, ef koma á upp þeim byggingum, sem þarf til þess að fullnægja kröfum þeim, sem þjóðin sjálf gerir og ferðamenn þar að auki. Mér virðist hentugt tækifæri að gefa ríkisstj. víðtækari heimild en hér er farið fram á. Ég held hverjum manni sé ljóst, sem um þetta mál hugsar, að tiltölulega fljótt á eftir gistihúsi í Reykjavík þyrftu að koma gistihús mjög víða um landið, til þess að fullnægja þeim kröfum, sem þarf að gera á þessu sviði. Hins vegar er gefið, að við þyrftum að leggja fyrirfram okkar plan, hvernig byggja skuli, hvar skuli byggja og hverjir reka gistihúsin. Hér hefur allmikið verið rætt, að heppilegt væri, ef meira framlag fengist frá hálfu einstaklinga og stofnana, en ríkissjóður þyrfti ekki að bera alla ábyrgð á þessu. Er ekki nema sjálfsagt að reyna, hve mikið einstaklingar treysta sér til að leggja fram sjálfir. Þetta er eitt af þeim sviðum, þar sem einkareksturinn er á margan hátt mjög eðlilegur. Hins vegar fer vel á, eins og víða annars staðar, að ríkisstj. grípi inn í og skipuleggi, svo framarlega sem það sýnir sig, að einstaklingar eða félög hafa ekki bolmagn til eða áhuga fyrir því.

Ég hef hugsað mér að bera fram brtt. við þetta frv., að sett verði sérstök nefnd, kosin hlutfallskosningu í Alþ., sem athugaði þetta mál og undirbyggi till. um það, hvar gistihús skyldi setja á landinu, um byggingu þeirra og rekstrarfyrirkomulag, áætlað heildarkerfi, sem komið verði upp í sambandi við þennan atvinnurekstur. En ríkisstj. verði heimilað að verja allt að 10 milljónum króna til þess. Ætti nefnd þessi að ganga frá till. sínum mjög fljótt, svo að sem fyrst mætti hefjast handa. Síðar yrði reynt, hvort einstaklingar fást til að framkvæma að meira eða minna leyti þær till., sem n. hefur gert. Mál þetta hefur nú verið á döfinni, og ættu menn að geta fljótt ráðið við sig, hvort þeir vildu leggja fé fram og gefa sig þá fram við ríkisstj., sem gæti bráðlega farið að nota tímann til að reyna að ná samkomulagi við þá. Og ef það kæmi í ljós, að einstaklingar eða félög vildu ekki leggja í þetta, þyrfti að heimila ríkisstj. að gangast fyrir stofnun hlutafélags til þess að koma upp gistihúsum og reka þau. Mér finnst eðlilegt, að þetta sé bundið við hlutafjárstofnun, vegna þess að undir öllum kringumstæðum er nauðsynlegt, að ríkið tryggi svo mikið framlag á móti. Það er ekki ástæða til, að þeir einstaklingar, sem eiga fé, skorist algerlega undan þessu, engin ástæða að sleppa þeim með það. Og í samþykktum, sem liggja til grundvallar til myndunar ríkisstj., er gert ráð fyrir, að ef menn, sem eiga peninga, eru of tregir, þá megi grípa til þeirra aðferða, að knýja menn til að leggja fé fram. Ég álít, að það hlutafé, sem ríkið legði fram, ætti ekki að fara fram úr 1/3, þannig að ef gengið er út frá 30 milljónum, legði ríkissjóður fram 10 millj. Er það sama hlutfall og gert er ráð fyrir hér í Reykjavík, 5 millj. gegn 10 millj. annars staðar frá. Nú er það skiljanlega eins hentugt fyrir ríkið, að ekki eigi eitt og sama hlutafélag öll gistihúsin. T. d. ætti að vera mögulegt að fá Reykjavík til að vera með sem stór hluthafi í byggingu síns gistihúss, sem eðlilegt væri, að yrði það fyrsta. Þess vegna geri ég í mínum brtt. ráð fyrir, að hægt verði að hafa þessi hlutafélög fleiri, og ríkissjóður gæti skipt sínu framlagi niður á þau, sem væri þó ekki meira en 1/3 hluti. Enn fremur hef ég gert ráð fyrir, að þessi hlutafélög sjálf reki þessi gistihús. Mér finnst eðlilegast, að eigendurnir sjálfir annist reksturinn. Það mundi líka tryggja það, ekki sízt þegar gistihúsakerfið væri komið upp eins og það á að vera í landinu, að fyrirkomulagið yrði sem hagfelldast og tengsl væru á milli gistihúsanna.

Slíkt gæti orðið, þó að um fleiri en eitt hlutafélag væri að ræða, og allt kerfið gæti í mörgum greinum orðið rekið eins og eitt stórt fyrirtæki, innkaup og annað slíkt. Og við vitum, hve mikla þýðingu það hefur, að skipulag og samræming í þessum efnum sé sem allra bezt.

Vel er líklegt, að úti um sveitir, þar sem allar aðstæður eru heppilegar fyrir gistihúsrekstur, mundu sýslufélög gerast hluthafar, eða ýmsar stofnanir, sem þar starfa, eða jafnvel svo og svo margir bændur, sem þar búa. Mundi þetta jafnvel geta skapað nokkra keppni milli landshluta um að koma sem fyrst upp gistihúsum hjá sér. Við þekkjum það líka, að í hvert skipti sem talað er um að gera eitthvað hér í Reykjavík, finnst mönnum úti á landi þeir vera afskiptir. En ef við gefum þeim undir fótinn, að hægt sé að undirbúa málið hjá þeim líka, ef þeir að sínu leyti leggja sig fram, þá mundi það ýta undir um framkvæmdir hið fyrsta. Við vitum, að fjármagn er allmikið til í sveitum, því að svo mikið er til í sparisjóðum og liggur þar rentulaust. Einni undantekningu hef ég gengið út frá í mínum till., að ríkið mætti koma upp eingöngu fyrir eigin reikning gistihúsi á Þingvöllum af því fé, sem ríkisstj. er heimilt að taka að láni. Það þarf ekki að skýra fyrir hv. þm., að hvaða leyti sá staður hefur sérstöðu. — Þetta eru höfuðbrtt., sem ég fór fram á, að ræddar væru í fjhn. Mitt álit er, að þær mundu bæta lögin og veita frv. betra fylgi á þingi, enda eðlilegt, þar sem málinu er markaður meiri heildarsvipur með því að kveða nokkuð á um rekstrarfyrirkomulagið. Það ætti líka að mega komast nokkuð hjá mistökum í vali staða fyrir gistihús með því, að nefnd, sem kosin er af þingflokkum, hefði gert sínar till. Annars er hætt við, að eftir að byggt hefur verið gistihús í Reykjavík, mundi á næstu árum rigna niður frv. um byggingu gistihúsa, því að hver einasti þm. mundi koma fram með sitt kjördæmi, öll halarófan, eins og í vegamálunum, og telja sitt kjördæmi tilvalið fyrir gistihúsrekstur. Af þessu mundi leiða endalaust rifrildi, sem tefur framgang málsins. Við þekkjum líka annað, að það er oft hægt að fá mest gert í stórum málum rétt fyrir kosningar, ef nægilegt er fé og stórhugur í mönnum.

Viðvíkjandi eignarnámsheimild, sem allmikið hefur verið rætt um, verð ég að segja, að ég er mótfallinn að ákveða einhvern sérstakan stað í Reykjavík fyrir gistihús, sem eignarnámsheimild sé bundin við. Ég er ekki á móti stefnu n. í brtt., sem fram hafa komið. En ég álít það hlutverk n., sem yrði kosin, að gera út um þetta, en betra að losna við slíkt úr almennum umr. á þingi. Ég held yfirleitt, að það sé síður en svo hætta á, að þess háttar lagafyrirmæli verði misnotuð, jafnvel þó að þau veiti allvíðtæka heimild.

Það hefur nú borið á góma í sambandi við þetta mál og önnur viðvíkjandi stórbyggingum í Reykjavík, að spursmál væri, hvort við reistum okkur ekki hurðarás um öxl með stórbyggingum og verðum svo í vandræðum með vinnuafl og annað. Ég vil leggja áherzlu á, að stórbyggingar, auk íbúðarhúsa, er eitt af því nauðsynlegasta, sem við þurfum að framkvæma í okkar landi.

Við stöndum það illa að vígi, að við höfum svo að segja ekkert af stórbyggingum, þeim byggingum, sem einkenna hverja einustu stórborg Evrópu og eru sumar hverjar margra alda gamlar og hafa mótað menningarlíf viðkomandi þjóðar. Það er mikil nauðsyn, að sú kynslóð, sem býr við eins góða afkomu og við, leggi sérstaka áherzlu á að umskapa sitt umhverfi að því er þetta snertir, til þess að skapa þá aðstöðu, að félagslíf og menningarlíf geti staðið fyllilega jafnfætis öðrum þjóðum. Sá ótti, að við séum að ráðast í allt of mikið, held ég að sé alveg ástæðulaus. Við höfum reynt, að bókstaflega hver einasta stórbygging, sem við höfum reist, hefur verið orðin of lítil eftir 5–10 ár. Ef ráðizt er í stórt, er undir eins sagt, að við séum að sigla okkur á hausinn, en stuttu eftir viðurkennum við, að við hefðum átt að ráðast í meira. Og að þessar opinberu byggingar eigi að draga frá byggingu íbúðarhúsa, álít ég alls ekki. Við eigum samt að geta haft fullan kraft á okkar íbúðarhúsum að því er snertir vinnuafl og tæki, þó að við byggjum stórbyggingar hér á Íslandi. Það er allt annað, sem getur valdið erfiðleikum, og það er spursmálið um fjármagn. Þegar við vorum að ræða um sementsverksmiðju á Íslandi, var ein af röksemdunum, að svo lítið af sementi væri notað, 26 þúsund tonn á ári, en nú er notkunin orðin yfir 40 þúsund tonn. Óhætt er að reikna í ár, að við munum flytja inn um 50 þús. tonn. Það, sem við þurfum að gera til þess að vinnuaflið nægi, er að breyta tækninni. Hún er á handverksstigi, þó að við séum að koma á stóriðju víða annars staðar. Við getum áorkað tvöfalt eða þrefalt í byggingum, ef við bara höfum almennilegt skipulag. Þannig finnst mér engin ástæða til að álíta, að þjóðin kollsigli sig með því að ráðast í stórar byggingar nú, — hún eigi einnig að geta tryggt framkvæmd íbúðarhúsabygginga í mjög stórum stíl. Eina vandamálið er það fjárhagslega. Ef tækni og skipulag er betra, held ég, að mótbáran um skort á vinnuafli muni ekki standast. Eftir því sem ég bezt veit er sement fáanlegt, og af tækjum erum við að fá meira og meira, og held ég, að hægt hefði verið að fá enn meira af þeim, ef í það hefði verið ráðizt.

Það hefði verið óskandi, að þessar brtt. hefði mátt ræða í fjhn., en það var lítill tími, en það mundi hafa flýtt fyrir afgreiðslu hér, ef náðst hefði samkomulag um till., eftir að þær hefðu verið ræddar verulega. Ég er reiðubúinn að ræða þær ýtarlegar utan deildarinnar líka, ef kostur er á því. Ég held till. eindregið fram. Og ef meiningin er hjá forseta að ljúka umr. nú, verð ég að biðja um afbrigði. Annars þætti mér heppilegast að geta rætt þær í n., þó að vísu hafi verið fellt með jöfnum atkv. að taka þær fyrir á fundi nú rétt fyrir matartímann.