13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Ég vil á þessu stigi málsins lýsa því yfir, að ég get ekki fylgt frv. nema gerð sé breyt. á 4. gr., þar sem stendur, að ef þetta gistihús verði reist og rekið af hlutafélagi, skuli ákvæði hlutafjárlaga, nr. 77/1921, ekki gilda um þetta hlutafélag. Þetta er hál braut, og undrar mig, að þetta skuli hafa náð fram að ganga í hv. Nd. og komizt athugasemdalaust gegnum fjhn. Ég vil benda á reynsluna, sem fengizt hefur af því, að hér hefur eitt hlutafélag verið rekið undir slíku ákvæði, það er Útvegsbanki Íslands. Hann hefur verið rekinn í mörg ár þannig, að einn aðilinn, sem er ríkissjóði viðkomandi, hæstv. fjmrh., getur ráðið öllu í fyrirtækinu með þeim árangri og afleiðingum, að Alþ. sjálft hefur orðið að fyrirskipa ríkissjóði, að það skyldi lána út á alla hluthafana. Það er vitanlegt, að ef þessu ákvæði hlutafjárl. er beitt, þá er ekki nema sá eini aðili, sem ræður, sá sem hefur meiri hl. í fyrirtækinu. Ég mun ekki geta fylgt frv. nema þessu ákvæði sé breytt, og mun ég við næstu umr. bera fram brtt. um það, að þessi gr. falli niður.

Ég skal ekki ræða eignarnámsheimildina, en hefði talið eðlilegra, að hún væri takmörkuð t. d. við 12 mánuði, og vil ég heyra, hvort hv. frsm. getur ekki fallizt á það. Í sambandi við það vil ég benda á, að af Sjálfstfl. var það sótt fast, þegar um var að ræða að taka eignarnámi eignir olíufélaganna, að það stæði ekki nema 2 mánuði. Þá voru færð fram þau rök, að það væri mjög óviðeigandi, að menn hefðu hangandi yfir höfði sér um ótakmarkaðan tíma eignarnámsheimild og gætu ekki ráðstafað eignunum.