13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég sé ekki fært að fylgja þessu frv., þó að því yrði breytt á þann veg, sem hér er gert ráð fyrir, og með þeim hætti, sem hv. þm. Barð. minntist á, og ástæðurnar til þess, að ég get ekki fylgt þessu máli, eru þær, að mér virðist vera meiri þörf á því fyrir ríkissjóð að leggja fjármuni í ýmislegt annað en hótelbyggingu, sem fyrst og fremst er og verður fyrir útlendinga, sem gista þetta land. Ég viðurkenni þörfina á því að endurbæta ástandið í hótelmálunum hér í bænum og víðar, en mér finnst næsta fráleitt, að ríkið leggi 5 millj. kr. í slíka hótelbyggingu, þegar þess er gætt, að þau rök, sem fram eru borin fyrir málinu, eru þau, að það eigi að gera þetta til þess að stuðla að ferðamannastraumi til landsins. Við vitum það, að mikill hluti af þeim tekjum, sem fást við ferðamannastraum, eru einmitt þeir peningar, sem ferðamenn skilja eftir sig á hótelum eins og þessu. En það er yfirlýst af þeim hæstv. ráðh., sem flutti þetta mál í Nd., að hann gerir ráð fyrir því, að þessar 5 millj. muni ekki svara vöxtum og heldur ekki fást að fullu aftur, — hvorki fást vextir af höfuðstól né höfuðstóllinn allur. Það er því gert ráð fyrir, að þessir fjármunir muni að verulegu leyti tapast. Ég er undrandi yfir þessu, vegna þess að það kemur í ljós og er tekið fram af honum, að a. m. k. að því er snertir hótelreksturinn, þá á ríkið að kosta þessa útlendinga hér í landinu, meðan þeir dvelja hér, en eðlilegra hefði verið, að þessi atvinnurekstur hefði verið fyrir landsmenn. Segi menn svo, að það sé sagt út í bláinn, að þetta hótel sé fyrst og fremst fyrir útlendinga. Við þekkjum, hvernig hótelrekstri er háttað erlendis. Við vitum, að hótel eru alls staðar í mörgum flokkum og að hótel eins og þetta, sem verður áreiðanlega dýrt, sækja ekki aðrir en efnaðir menn, það verður undir engum kringumstæðum millistéttarhótel, það verður fyrst og fremst hótel fyrir útlendinga, og þarf ekki að færa frekari rök að því.

Þá er annað atriði, sem ég vildi taka fram. Það er heimilað í 3. gr. frv. að reka hótelið fyrir reikning ríkissjóðs. Það verður þess vegna í þessu frv. heimild til þess að þjóðnýta verulegan hluta af þessum atvinnurekstri, hótelrekstrinum í þessu landi, en ég sé ekki, að mikil þörf sé á því, ef hér verður ferðamannastraumur eins og gert er ráð fyrir, því að þá á þetta fyrst og fremst að vera verk einstaklinga, sem þá geta slegið sér saman í félagsskap um þetta mál, og það vita allir þeir, sem hér eru viðstaddir, að hótelrekstur er, þar sem ferðamannastraumur er á annað borð, arðvænlegur atvinnurekstur. Við vitum, að mörg af þeim hótelum, sem erlendis starfa, þar sem er verulegur ferðamannastraumur, eru með ríkustu fyrirtækjum. Mér finnst þess vegna einkennilegt, að ríkið fari nú að þjóta til og taka 5 millj. kr. lán til þess að þjóðnýta verulegan hluta af þessum atvinnurekstri, því að til þess er heimild, eins og kemur fram í frv. Það er að vísu gert ráð fyrir því samkv. 4. gr., að reka megi hótel þetta sem hlutafélag, þar sem framlag ríkissjóðs mundi njóta sín að fullu, en þó mundi ekki verða í meiri hl. samkvæmt þeirri kostnaðaráætlun, sem fyrir liggur og nefnd er undir umr. Þess vegna er auðsætt, að ef það verður ekki þannig, að hótelið verði rekið sem þjóðnýtingarstofnun, þá verður það rekið af þeim félögum og einstaklingum, sem taka þátt í þessu með ríkinu, þannig að þeir ráða rekstrinum, en ríkissjóður leggur fram þessa peninga, sem hér er gert ráð fyrir, og ræður í raun og veru engu um reksturinn eða fyrirkomulag hans. Mér finnst þetta því frá ríkisins hendi vera hið undarlegasta fyrirtæki og get alls ekki undir neinum kringumstæðum greitt atkv. með því. Það gæti komið til mála að greiða fyrir þeim einstaklingum, sem má segja, að hafi haft í hyggju að reisa hér hótel, og það gat ríkið gert með því að greiða fyrir þeim um lántöku, en að ríkið fari að blanda sér inn í þennan rekstur, það finnst mér algerlega röng leið og þess vegna er ég á móti frv. Ég ætla ekki að gera aðrar aths. við þetta mál en ég hef nú gert. Ég hef enga löngun til þess að tefja málið, sem sennilega er ákveðin afgreiðsla fyrirfram úr þessari hv. d.