13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Hv. þm. Barð. hreyfði andmælum við 4. gr. frv., en þar sem hér er aðeins um þrjá aðila að ræða og engar líkur eru til þess, að þeir þrír aðilar vilji fara að taka fleiri aðila inn í þetta með þessu ákvæði, verður að gera þeim mögulegt að reka þetta fyrirtæki sem hlutafélag, og ég sé ekkert athugavert við það, þar sem hér eiga í hlut ríki og bær — þó að þarna sé að vísu eitt félag, sem meira að nafninu til er einkafélag — þó að sett sé nokkuð sérstakt ákvæði til þess að eins liðugt sé um rekstur fyrirtækisins og unnt er. Ég vil aðeins segja það, um að ekki sé takmarkaður atkvæðisrétturinn í þessu hlutafélagi, að það kann að vera, að það eigi ekki við í þessu sambandi, að ríkið sé með í hlutafélaginu, þar sem það hefur ekki tök á að geta ráðið rekstrinum, — þótt það sé til, að ríkið sjálft reki hlutafélög eða fyrirtæki án þess að ráða rekstrinum, — en þá verðum við að gæta þess, að þetta er aðeins til þess að gera það mögulegt, að þessir þrír aðilar geti rekið þetta fyrirtæki sem hlutafélag, en það liggja ekki fyrir upplýsingar um, hvort meiningin er að gera það eða ekki.

Þá vildi hv. þm. Barð. takmarka eignarnámsheimildina við ákveðinn tíma, t. d. 12 mánuði. Nú skal ég játa, að við höfum ekkert um það hugsað, heldur vakti fyrir okkur, að hægt væri að hefjast handa um þessa framkvæmd nú þegar, svo að raunverulega mundu ekki bæjarbúar allir hafa þennan voða yfir höfði sér. En það er óviðkunnanlegt, að bæjarmenn allir eða hluti bæjarins hafi þetta ákvæði, eignarnámsheimildina, yfir höfði sér ótakmarkaðan tíma, ég skal taka undir það.

Þá talaði hv. þm. Str. um það, að hótelum væri jafnan skipað í flokka úti í löndum. Og svo mun það verða hér að nokkru leyti, eftir því sem mér er skýrt frá, að þetta mundi einmitt eiga við okkur í fámenninu hér, að svo stórt gistihús sem þetta verði reist og útbúið þannig, að í því væru til herbergi og gisting fyrir sem allra flestar stéttir. Á hótelinu ættu m. a. að vera hentug „pláss“ fyrir sveitamenn. En vitleysa er að byggja fyrir útlendinga. Nær engri átt að fara að byggja sérstaklega fyrir einhverja „túrista“, sem eru hér aðeins skamma stund á sumrin. Hins vegar er aðeins eitt hótel á Íslandi, sem kallast má með hástéttarbrag, ef svo má að orði kveða. Það er Hótel KEA á Akureyri. Þar mega menn ekki koma inn, nema þeir séu sérstaklega vel til fara. Mér var sögð kátleg saga þaðan, þegar ég kom til Akureyrar, þess efnis, að einum vini forstöðumanns hótelsins, merkum manni, hefði verið vísað þar á dyr. En það kemur reyndar ekki þessu máli við. — Hv. þm. Str. lét svo um mælt, að ekki ætti að borga með útlendingum. En við, sem ferðazt höfum erlendis, vitum, að víða borgar ríkið stórfé með ferðamönnum. Ferðalög með járnbrautum krefjast t. d. mikilla útgjalda. Þó getur þetta borgað sig. En ég fyrir mitt leyti óska ekki eftir stríðum ferðamannastraumi til Íslands.

Ég skal svo eigi teygja meir úr umræðunum. Það er mikið að gera. Ég veit það. En að lokum vil ég taka fram, að ég fæ ekki séð, að staðhæfingar hv. þm. Str. hnekki málinu hið minnsta.