13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Bjarni Benediktsson:

Ég vildi aðeins láta í ljós stuðning minn við málið og svara ýmsum aths., er fram hafa komið.

Þegar frv. þetta var í undirbúningi, var það lagt fyrir bæjarráð Reykjavíkur. Meiri hluti þess mælti á móti málinu, því að vikið yrði frá ákvæðum hlutafjárlaganna. Ég tel eðlilegt, ef ríkið blandar sér á annað borð í atvinnurekstur, að þá gildi um það sömu reglur og þær, er ríkið setur borgurunum. M. ö. o.: ríkið hlíti sömu lögum sem þegnarnir. Álít ég því, að þessi gistihúsbygging eigi að heyra undir l. um hlutafélög og mundi greiða atkv. með brtt., sem gengi í þá átt. Ég tel þetta meira mál en svo, að lítilfjörleg smámunasemi megi verða því til trafala.

Það verð ég að segja, að ég er undrandi yfir ummælum hv. þm. varðandi eignarnámsheimildina. Sé ég enga ástæðu til að standa á móti henni. Lík ákvæði eru til í mörgum öðrum lögum. Nefni ég t. d. vegalög, hafnalög, og fleiri mætti til tína. Sé ég því enga sérstaka ástæðu til ótta af því tilefni. Ef brtt. n. verður samþ., er gengið sýnu betur frá þessu fyrir hagsmuni borgarans. Ég held, að málið sé svo umfangsmikið, að óvíst sé, hvenær hægt verði að hefja framkvæmdir, þótt hins vegar sé vonandi, að þær geti hafizt sem fyrst. Því má vera ljóst, að eigi er rétt að tímabinda heimildina.

Ég get upplýst, til þess að menn óttist ekki heimild þessa um of, og vegna þeirra umræðna, er fram hafa farið um frv. í hv. Nd., þar sem tal manna var komið niður á sérstakar eignir, og hver væri ætlun bæjarráðs, að þá stöðvaðist sala á ákveðinni eign hér. Menn sneru sér til bæjarstj., og voru allir flokkarnir sammála um í bæjarráði að kaupa eignina eftir mati. Menn verða að treysta því, að svo verði á málum haldið, að allrar sanngirni verði gætt í garð borgaranna í viðskiptum þeirra og bæjaryfirvaldanna.

Það á ekki að líta á hótelið þannig, að það varði útlendinga eina, sbr. ummæli hv. þm. Str. Hótelið á að geta orðið fyrir íslenzkan almenning engu síður en fyrir útlendinga. Hefur einmitt vakað fyrir mönnum, að það gæti orðið fyrir alla. Eftirtektarvert er, að arkitektinn, sem um málið fjallaði, lét þess getið, að vitanlega ætti að haga svo til, að allir menn gætu dvalizt á hótelinu að jöfnu, ríkir og fátækir. Hann taldi enga tæknilega galla á vera í þessu efni. Hins vegar má alltaf búast við, að vísa þurfi þaðan út mönnum úr öllum stéttum, ef þeir koma þar ósæmilega eða sóðalega fram í klæðaburði eða drykkjuskap. Þar á enginn mannamunur að eiga sér stað. En það hefur einmitt verið talið okkur til lofs, að hér á landi væri lítill stéttamismunur.

Ég held, að ekki væri um að ræða, að hótelið gæti borið sig fjárhagslega, ef miða ætti einvörðungu við ríka útlendinga. Og hér vildi ég leggja áherzlu á eitt atriði : Mér var sönn ánægja að því að sjá Hótel KEA á Akureyri síðastl. sumar. Er það prýðileg stofnun og til mikils menningarauka og sóma fyrir Akureyrarbæ, þótt ég telji hins vegar, að það hefði átt að vera betur í sveit sett. Sú meginregla gildir á þessu hóteli, að þar eiga jafnan aðgang menn úr öllum stéttum, ef þeir koma sæmilega fram. Virðist þar hafa sannazt, að hægt sé að reka gott og nýtízku hótel fyrir alla, svo að vel fari á. Ég hef að vísu enga tilhneigingu til að hefja KEA til skýjanna, en vil þó láta það njóta sannmælis.

Tel ég, að aðgerðir þess í hótelmálum megi mjög verða öðrum til fyrirmyndar. Þó er það rétt, að allir aðrir en yfirstéttarmenn mega vel við una.

Ég blanda mér annars ekki í deilur hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Eyf. Ég tel Hótel KEA lofsvert fyrirtæki, en um það er annars það að segja, að það er lofsvert fyrir þann, er veitir því forstöðu. Harma ég mjög, ef talsmenn samvinnuhreyfingarinnar taka upp fjandskap gegn því, að Reykvíkingar fái gott hótel fyrir sig, eins og Akureyringar hafa sitt Hótel KEA. Á hinn bóginn, ef SÍS vildi ganga í félag við þá, sem áhuga hafa á þessu máli, um, að hótel þetta gæti borið af öllum öðrum hér á landi, þá væri það ánægjulegt. Væri þá sameinazt um að gera öllum til geðs og hæfis. — Þetta ætti eigi svo mjög að verða deilumál.