29.11.1945
Neðri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Pétur Ottesen:

Eins og hv. form. sjútvn. reyndar tók fram, er það engan veginn gild ástæða til þess að hefta framgang mála í n., þótt einhverjir aðilar, sem leitað hefur verið umsagnar frá, vanræki eða hirði ekki um að gefa þá umsögn, og það er vitanlega alveg óframbærilegt að bera slíkt fyrir sig, enda viðurkenndi hv. form. sjútvn., að svo væri.

Ég vil segja það viðvíkjandi frv. um fiskimálan., markaðsleit o. fl., að það virðist hafa dregizt nokkuð lengi hjá n. að senda þetta frv. til umsagnar þeirra aðila, sem hv. form. sjútvn. minntist á, þar sem hann segir, að það hafi verið um mánaðamótin okt. og nóv., en frv. var vísað til n. 12. okt. Þegar n. taka ákvarðanir um að senda mál til umsagnar, er venjulega talið sjálfsagt að gera það á fyrsta stigi mála í n., en ekki að láta það dragast svo lengi sem hér hefur átt sér stað, og sérstaklega þegar það er notað sem ástæða fyrir langri meðferð n. á máli, að ekki hafi borizt umsagnir um mál frá þeim aðilum, sem það hafi verið sent til umsagnar. — Nú hefur hv. form. sjútvn. lofað skjótri afgreiðslu þessara mála frá n., og verður við það að sitja, þó að illt sé, hve dregizt hefur um afgreiðslu þessara mála í n.