15.04.1946
Efri deild: 107. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Frsm. (Magnús Jónsson):

Fjárhagsnefnd hefur ekki haft tækifæri til að athuga þessar brtt. á þskj. 812 og því síður tekið afstöðu til skrifl. brtt. Ég get tekið undir með hv. 6. þm. Reykv., að síðari brtt. hv. þm. Barð. sé meinlaus; ég tel rétt að takmarka eignarnámsheimildina, — en hinni fyrri get ég ekki greitt atkv. Upphaflegi tilgangurinn með 4. gr. frv. var að gera þeim, er að þessu standa, mögulegt að reka þetta sem hlutafélag. Ég get ekki séð neina hættu við þetta. Þegar ríki og bær stofna hlutafélag, þá gera hlutafélagalögin ekki ráð fyrir slíku, og tel ég því rétt að veita undanþágu í þessu tilfelli. Ef skrifl. brtt. verður samþ., er verið að svipta ríkið og bæinn íhlutunarrétti. Þó kann að vera að þeir 3 aðilar, sem nú standa að byggingunni, kjósi ekki hlutafélagaleiðina, og er till. þá meinlaus.