15.04.1946
Efri deild: 107. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Hv. þm. Seyðf. og hv. þm. Barð. héldu því fram, að dæmi mitt um eign hluthafa og atkvæðisrétt gæti ekki staðizt. En hæstv. fjmrh. hefur nú leitt rök að því, að yfirráðahlutföllin þurfi ekki að raskast, þótt svo verði takmarkað sem í brtt. segir, þ. e. 5 hluthafa fyrirkomulag. Setja má þó dæmið dálítið öðruvísi upp. Ef hlutaféð er 10 millj., tveir stórir hluthafar með 7½ millj., en hinir með 2½ millj., þá yrðu yfirráðin ævinlega í höndum hinna tveggja stóru að viðbættum einhverjum einum. En svona verður það ekki í hinu dæminu, því að þar verða öll völdin alltaf í höndum tveggja stóru hluthafanna, sem mynda meiri hlutann. Ég tel þessa hlið á málinu ekki lítilvæga. — Ég tel eðlilegast að haga málinu eins og til var stofnað, breyta þar engu um. Sennilegt er, að ekki verði mikið um framboð einstaklinga, og býst ég ekki við, að ástæða sé til þess að harma það. En það kom greinilega fram í viðtölum, sem ég átti við menn, að þeir efast um, að fjárhagsafkoman verði góð, þótt þeir vilji hins vegar, að þetta fari vel úr hendi. Ég er hræddur um, að það gangi að einhverju leyti út yfir reksturinn.

Helzt vildi ég, að hér yrði látið óbreytt haldast.