16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Eysteinn Jónsson:

Það er bent á það af hæstv. ráðh. og hæstv. 6. landsk. þm., að það sé til almenn eignarnámsheimild í l., svo sem brúarl., vegal. og nú síðast benti hv. 6. landsk, þm. á íþróttal. Því mótmælir enginn, að þetta er til, og má vera, að hægt sé að finna fleiri lagabálka, þar sem svona er ástatt, en það dregur enginn það í efa, að vegagerðir og hafnargerðir eru framkvæmdar í almannaþágu, þannig að það er fullkomlega réttlátt að setja eignarnámsheimild, þegar þau mannvirki eru annars vegar. Það er ekki framkvæmanlegt að haga þeim eignarnámsheimildum þannig, að það sé aðeins tiltekinn blettur af landi, sem veitt er heimild fyrir í hvert sinn, og þess vegna hefur löggjafarsamkoman annaðhvort látið undir höfuð leggjast að veita slíkar heimildir eða farin hefur verið sú leið að veita almenna heimild. Það sama er að segja um íþróttal., sú heimild var látin vera þetta almenn af því, að ekki þótti framkvæmanlegt, að í hvert skipti, sem ætti að búa til íþróttavöll eða reisa einhverja slíka miðstöð, væri hægt að fá sérstaka lagaheimild. En ef á að fara að nota þessar heimildir, sem gefnar eru af brýnni nauðsyn, til þess að bera þær fyrir sig í einhverju máli, að af því að þetta sé. í l., þá sé alltaf óhætt að veita almenna eignarnámsheimild, þá er það auðvitað mistúlkun á þeirri stefnu, sem þingið hefur haft í þessum efnum, því að þegar um einstök mannvirki hefur verið að ræða, hefur venjulega verið farin sú leið að hnitmiða, hvað ætti að taka, af því að það var framkvæmanlegt að gera það, og það hefur ekki verið bent á neitt dæmi hér um gagnstæða stefnu, þó að lýst hafi verið eftir því.

Þess vegna er það áreiðanlegt, að ef látið væri að vilja hæstv. ráðh. í þessu, þá mundi vera farið inn á nýja braut, og það er af þessu, að menn vilja ekki fallast á þessa gr. í frv., því að eins og hefur komið fram, mundi vera nægur tími til þess að fá þessa heimild, þegar húsinu hefur verið ráðinn staður.

En sem sagt, ég stóð upp til þess að benda á það, að það stoðar ekki að vitna til vegal., hafnarl. eða brúarl., þar er allt öðru máli að gegna, þar hefur löggjafinn farið út á þessa braut, að veita almenna eignarnámsheimild, vegna þess að ekki er hægt að gera það öðruvísi.