30.11.1945
Neðri deild: 46. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Í tilefni af fyrirspurn hv. 1. þm. Árn. (JörB) og einnig af fyrirspurn hv. 2. þm. N.-M. (PZ) varðandi þau lagafrv., sem þeir flytja og send hafa verið til landbn. og liggja hjá henni, þá er mér að sjálfsögðu ljúft að skýra frá því, hvernig stendur á því, að þau hafa ekki verið afgr. En orsakirnar eru þær, að landbn. hefur verið kunnugt um það, að fyrir löngu og miklu fyrr en þessi frv. voru borin fram var í meðferð hjá nýbyggingarráði frv. um það að bæta úr lánakjörum landbúnaðarins yfirleitt. Og við áttum von á, að þetta frv. væri að koma, og fyrir viku sagði búnaðarmálastjóri mér, en hann er einnig form. nýbýlastjórnar og einn af meðlimum nýbyggingarráðs, að hann gæti gert ráð fyrir því, að þetta frv. verði lagt fyrir nýbýlastjórn þá og þegar. Þetta er ekki orðið enn. En ég geri ráð fyrir, að landbn. afgreiði ekki þessi lagafrv. fyrr en það frv. er komið, til þess að hægt verði að taka þessi mál fyrir öll í einu lagi. Þetta eru þau svör, sem ég hef um þetta, og vænti ég þess, að þessir hv. þm. láti sér þau nægja.