08.10.1945
Efri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Mér er það fullljóst, að ákvæði þessara l. er ekki annað en bráðabirgðalausn. Ég hef áður bent á, að finna verði aðra lausn þessara mála en niðurgreiðslurnar. Þetta er eitt af því, sem erfitt er að gera áætlun um með nokkurri nákvæmni. Það hlýtur miklu fremur að verða ágizkun en áætlun. En eftir því, sem næst verður komizt, munu það vera um 80 þús. manns, sem rétt hafa til niðurgreiðslu, en það svarar til 3200 tonna kjöts eða um 14 millj. kr. í niðurgreiðslur. Þar við bætast niðurgreiðslur á mjólk, sem mun nema um 3 millj. kr. Þetta gerir alls um 16–17 millj. kr., og geri ég ráð fyrir, að flestir hv. þdm. segi, að það sé nóg og meira en leggjandi sé á ríkissjóð. Og þótt ríkisstj. hafi af illri nauðsyn orðið að gangast fyrir því, að þessi brbl. væru sett, þá er henni ljóst, að hér er ekki um endanlega lausn að ræða. Mér er ef til vill enn þá ljósara en öðrum, hvaða erfiðleikum þetta er bundið, en þó eru þeir ekki meiri en svo, að það ætti að mega takast að sigrast á þeim, ef allar stéttir þjóðfélagsins standa saman. Hinu er þó ekki að neita, að þótt þessi lausn sé ekki góð, þá er hún samt mikil bót frá því, sem áður var. Bæði er, að þetta er lægri upphæð en áður var, og svo ætti þessi háttur á niðurgreiðslunum að hjálpa fólki til að skilja, hvert þetta stefnir, en það hefur ekki áttað sig á, að kjötið kostaði annað en það, sem borgað hefur verið fyrir það í búðum. (BSt:

Hitt hefur verið kallaður styrkur til bænda). Já, það má vel vera. En úr því að hv. 1. þm. Eyf. gat um þetta, þá skal ég geta þess, að ég álít, að hér sé hvorki um neytenda- né framleiðendastyrk að ræða. Hækkun vísitölunnar mundi koma jafnt niður á báðum þessum aðilum. Þetta er neyðarúrræði, sem gripið er til til þess að atvinnuvegirnir stöðvist ekki. Þess vegna hefur það enga efnislega þýðingu, þótt nú sé greitt til neytenda í stað framleiðenda.

Ég held svo, að ekki sé ástæða til að ræða þetta frv. frekar, en vil leggja til, að því verði vísað til fjhn.