08.10.1945
Efri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Ég mun ekki mikið svara hv. 1. þm. Eyf., en mun þó víkja nánar að einstaka atriðum í ræðu hans. Hann deilir á ríkisstj. fyrir seinlæti með l. og segir, að það hafi dregið úr kjötsölu t. d. á Akureyri. Það má vel vera, að það hafi haft einhver áhrif, en ég tel mjög óvíst, hvort það stafar af seinlæti í framkvæmd l. Ég mundi fremur telja það ástæðuna, að verðið er miklu hærra núna en áður.

Það er misskilningur hjá hv. þm., að brbl. hafi komið of seint. Það er ekki auðvelt að fá lausn á ástandi þessara mála og því nauðsynlegt, að stj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til að fá sem bezta lausn.

Hv. þm. var með till. um að spara fé ríkissjóðs með því, að sem minnst seldist innanlands, en ríkisstj. vill vinna að sem mestri innanlandsneyzlu, til þess að afkoma bænda verði betri. Hv. þm. er sannfærður um það, að síðar verði erfitt að afla fjár til niðurgreiðslu, en ég tel ótímabært að ræða um fjáröflunarleiðir í þessu skyni. En ef það á að gerast með skattaálagningu, þá mun það koma þungt niður á suma. Skoðun hv. þm. stingur mjög í stúf við flokksblað hans, sem prédikar, að verðið sé of hátt.

Ég vildi spyrja hv. þm., hvaða vald það er, sem ríkisstj. hefur tekið af bændum með brbl. Hv. þm. er of greindur maður til að fara með svona bull. Hann kvartar yfir vanrækslu ráðh. á því að skýra framkvæmd kjötsölul., því að óvissa manna um það dragi úr kjötsölunni. En menn vita, hvað aðilar hafa rétt til niðurgreiðslu á miklu kjötmagni. Ef þeir eru tortryggnir, geta þeir fengið nótur um kjötúttekt sína. Hitt er vafasamt, hve strangt skal framfylgja því, að menn framvísi nótum, því að alltaf er hætt við, að eitthvað af þeim glatist, og ríkisstj. langar alls ekki til að snuða fólk um niðurgreiðsluna á þann hátt.

Ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar um þetta, fyrr en ákveðið hefur verið að fullu um það eftir nokkurn tíma.