21.02.1946
Efri deild: 69. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að þreyta neinar kappræður um þetta mál, og er það af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að þegar málið var hér til 1. umr. í haust, ég ætla það hafi verið 8. okt., þá lét ég álit mitt í ljós um það. Og þó að hv. 1. þm. Reykv. segði í sinni ræðu, að ég mundi hafa orðið fyrir vonbrigðum vegna þess að mínar hrakspár rættust ekki (MJ: Ég breytti því.), þá er því til að svara, að hafi ég haft einhverjar vonir í þá átt, þá hef ég ekki orðið fyrir neinum vonbrigðum, því að mér sýnist það, sem ég sagði um málið í haust, standa óhrakið. Reynslan hefur aðeins staðfest það, sem ég sagði þá. Í öðru lagi get ég nú að flestu leyti látið nægja að vísa til nál. á þskj. 428. Ég tók eftir því við yfirlestur, að fallið hefur niður orð úr nál., sem ég ætlaðist til, að stæði í því. Að vísu skiptir það ekki miklu máli. Þar, sem talað er í nál. um, að brbl. hafi átt að spara ríkissjóði útgjöld, stendur, að aðferðin til þess hafi þó verið hæpin, og þar segir: Hún er sú, að láta verulegan hluta landsmanna ekki fá neina endurgreiðslu á kjötverði .... En þar átti að standa: Hún er einkum sú . …. Vitanlega er mér ljóst, að reynt er að ná nokkrum sparnaði með því að takmarka það kjötmagn, sem styrkur er greiddur fyrir.

Eins og hv. frsm. gat um, legg ég til, að þetta frv. verði fellt. Eru til þess einkum tvær ástæður. Í fyrsta lagi hafa þessi brbl. gefizt illa, einkum að því leyti, sem ég þegar gat um í haust, að þau urðu beinlínis til þess að spilla fyrir sölu á kjöti frá sláturshúsunum, vegna þess dráttar, sem á þeim varð. Og í öðru lagi tel ég það hafi ekki verið nauðsyn að gefa þessi brbl. út. En stjórnarskráin mælir svo fyrir, að ekki séu gefin út brbl. nema brýna nauðsyn beri til þess. (MJ: Skrökvar þá forsetinn?) Forsetinn segir ekkert annað en það, sem viðkomandi ráðh. segir, eins og kóngurinn áður. Hann trúir ráðherranum, eins og kóngurinn áður. Annars ætlaði ég að segja, að ég fellst á, að nauðsyn hafi verið að halda niðri vísitölunni, úr því að ekkert ráð tókst að finna til að halda niðri dýrtíðinni sjálfri. En hæstv. ríkisstj. hafði áður heimild til þess að halda niðri vísitölunni með niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Þess vegna eru þessi brbl. ekki gefin út vegna þessarar nauðsynjar, heldur er þetta aðeins fyrirkomulagsatriði að því er kjötið snertir. Í öðru lagi, eins og ég hef vikið að í sambandi við þetta mál, þá var ríkisstj. vitanlegt þegar frá þeim tíma, er hún tók við völdum, að til ýmiss konar ráðstafana þyrfti að taka út af verðlagi innanlands 15. sept. í haust. Og þar sem hún vissi þetta fyrirfram, þá bar henni að kalla Alþ. saman fyrir þann tíma, svo að Alþ., hið reglulega löggjafarvald, gæti sett l. um þetta mál, en ekki gefa út brbl. Þetta hef ég rætt í sambandi við annað mál og skal því ekki fara nánar út í það.

Það er ekki nema sanngjarnt, að ég sé spurður að því, hvað ég álíti, að við eigi að taka, ef að mínum ráðum er farið í þessu máli og frv. fellt. Ég skal segja það strax, að ég tel, þótt frv. sé fellt, þá beri ríkissjóði skylda til þess að greiða niður þann hluta af kjötverðinu, sem þegar hefur verið keypt. Brbl. eru l. meðan þau gilda, og það verður vitanlega að taka afleiðingunum af þeim l. meðan þau eru í gildi. Þetta álít ég klárt mál, þótt brbl. falli úr gildi. Í annan stað álít ég, að greiða yrði niður verðið á kjötinu um einhvern stuttan tíma, svo að vísitalan hækki ekki af þessum sökum. En eins og ég hef gert till. um í sambandi við annað mál, þá verður að gera aðrar ráðstafanir viðvíkjandi dýrtíðarmálunum en þessar bráðabirgðaráðstafanir, sem þetta frv. fjallar um og ýmis önnur brbl. og frv., sem fyrir þinginu hafa legið. Um þetta mun hæstv. ríkisstj. sannfærast fyrr eða síðar.

Ég gerði till. um það í sambandi við hina almennu heimild um niðurgreiðslur úr ríkissjóði á vörum, að skipuð yrði n. allra flokka til þess að athuga leiðir til þess að fá dýrtíðina stöðvaða innanlands og helzt færa hana eitthvað niður. Mér kom á óvart, þegar þessi till. mín var felld, því að henni hafði verið tekið vel t. d. af ráðh. og fleiri hv. dm., sem svo síðar greiddu atkv. á móti henni. En ég hugsa, að það líði nú óðum að því, að eina ráðið sé að fara svipaða leið og par er lagt til: reyna að koma á samkomulagi allra flokka og þjóðfélagsstétta um að gera tilraun til að spyrna raunverulega við fótum. Og ég hef lýst yfir ekki einasta fyrir mig persónulega, heldur fyrir þann flokk, sem ég tilheyri, að hann mun alltaf vera reiðubúinn til að taka þátt í ráðagerðum um þau efni. Ég tel þá víst, að þó að fyrst yrði sjálfsagt að greiða niður kjötið eins og mjólkina, ef að ráðum mínum yrði farið um að fella þetta frv., þá yrði næsta stigið það að reyna að koma sér niður á raunhæfar ráðstafanir til þess að gera slík l. sem þessi óþörf.

Hv. 1. þm. Reykv., frsm. meiri hl. n., sagði, að nál. mitt væri mótað af stjórnarandstöðu. Það má alltaf taka þannig til orða, og sízt kemur mér til hugar að neita því, að ég er í stjórnarandstöðu eins og nú horfir. En ég held ekki, að hv. þm. hafi neina ástæðu til að halda því fram, að mér sé ekki algerlega alvara með þá afstöðu, sem ég hef í þessu máli.