28.02.1946
Efri deild: 74. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Ég get fallizt á brtt. hv. 3. landsk. þm. við 7. gr. frv. Ég hef aldrei hugsað þetta öðruvísi en sem brbl. og hef þess vegna ekkert við það að athuga, þó að ákvæði sé þá sett í frv um, að ríkisstj. skuli láta fram fara endurskoðun á þeim, sem miðuð sé við tiltekinn tíma.

Samt sem áður vildi ég leyfa mér að biðja hæstv. forseta um að fresta þessari umr. nú og taka málið af dagskrá, og stafar það af því, að samningatilraunir fara nú fram um breyt. á 2. gr. frv., sem á að miða að því að gera l. auðveldari í framkvæmd. Ætla ég, að það sé nokkurt útlit fyrir, að samkomulag náist um það, og þá væri heppilegast, að sú breyt. á l. kæmi inn hér í hv. Ed., til þess að málið þurfi ekki að fara á milli deilda eingöngu vegna þeirrar breyt. Ég geri ráð fyrir, að frv. sé ekki stofnað í neina hættu með þessu, þó að afgreiðsla þess dragist náttúrlega af þessu nokkru lengur.