03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál almennt. Ég hef áður gert grein fyrir minni afstöðu til þess, og ég hef sem nefndarmaður í þeirri n., sem hefur þetta mál til meðferðar, ráðið d. til að fella þetta frv. Sú afstaða mín er óbreytt. En ég vil geta þess, að ég var ekki viðstaddur, þegar fjhn. tók þetta mál að nýju til athugunar eftir langa bið og þær brtt. voru lagðar fram í n., sem prentaðar eru á þskj. 658. Ég vil þá jafnframt geta þess, að þessar till. eru ekki frá mér, ég er ekki meðflm. að þeim. Hitt er annað mál, og kem ég að því síðar, að ég mun ekki leggjast á móti þessum brtt., þó að ég vildi ekki taka þátt í flutningi þeirra.

Þegar þetta mál var tekið hér fyrir alllöngu til 3. umr. óskaði hæstv. landbrh. þess, að málið yrði tekið af dagskrá, vegna þess að samkomulagsumleitanir færu fram um málið. Ég spurði hann þá, við hverja þessar samkomulagsumleitanir færu fram, og skýrði hann frá því, að það væri við verkalýðsfélögin. Nú staðfesti hv. frsm., að samkomulagsumleitanir hefðu farið fram og þessar brtt. séu árangurinn af því samkomulagi. Ég ætla ekkert að fara út í það, en ákaflega er það skrýtið, að ríkisstj. semur við verkalýðsfélögin um kjötsölu og fyrirkomulag hennar, en ekki við félög bænda. Því mundi kannske vera svarað, að þetta sé eingöngu um greiðslur til neytenda, hvernig þeim sé komið fyrir, en brtt. er þó þannig, að hugsazt gæti, að hún hefði áhrif á kjötsöluna. Það hefði því ekki verið nein goðgá, að þetta hefði verið orðað við Búnaðarfélag Íslands eða Samband ísl. samvinnufélaga, úr því að samið var um það við verkalýðsfélögin.

Ég er hv. frsm. n. og meiri hl. hennar sammála um það, að það liggi í augum uppi, ef þessar brtt. verði samþ., að þá verði þetta mál allt miklu hægara í meðförum bæði fyrir það opinbera og einstaklinga. Hið opinbera sparar nokkra vinnu og einstaklingarnir spara sér að verða að gera þessar kröfur og skýrslur og drengskaparyfirlýsingu, sem þeir vita ekki svo glögglega, hvort er rétt eða ekki. Hv. frsm. talaði um, að það væri að. vísu galli, hvað neytendur snerti, að þeir yrðu að bíða eftir greiðslunum til manntalsþings. Ég álít, að það sé ákaflega lítill galli, hér er ekki um stórar upphæðir að ræða, og annað hagræði, sem þeir af þessu hafa, getur þá vegið upp á móti því. Þó að ég viðurkenni þetta, sem hv. frsm. taldi þessum brtt. til gildis, þá er ekki því að neita, að mér finnst augljóst, að þegar búið er að samþ. þær, þá sé ekki lengur um niðurgreiðslur á andvirði kjöts að ræða. Mér skilst, eftir þessum till., að menn eigi að fá þessar greiðslur alveg án tillits til þess, hvort þeir kaupa kjöt eða ekki, og það er það atriði, sem ég átti við áðan þegar ég sagði, að bændum kynni að koma þetta mál við, og hugsanlegt væri, að þetta hefði áhrif á kjötkaup manna, þó að ég geri ekki mikið úr því. En vitað er, að sumir menn borða ekki kjöt, sumir af trúarbragðaástæðum og sumir af heilbrigðisástæðum, og þeir eiga að fá þessa greiðslu jafnt fyrir því. Þar af leiðandi er að verða úr þessu eins konar launauppbót til einstakra manna, en ekki niðurgreiðsla á kjötverði. Þó að ég sjái ekki ástæðu til annars en að benda á þetta, skal ég játa, að ég geri ekki ákaflega mikið úr því, hvaða áhrif þetta muni hafa í praksís. En vegna þeirra kosta, sem þetta þó hefur, þá mun ég láta þessar till. afskiptalausar, en ég mun greiða atkv. á móti þessu frv., hvort sem þessar till. verða samþ. eða felldar. Ég hef áður gert grein fyrir ástæðunum fyrir því, sem eru þær, að ég tel þessi l. hafa verið óþörf og að hægt hefði verið að koma í veg fyrir samkv. öðrum l., að kjötið hækkaði vísitöluna, og einnig það, að þessi l. hafa gefizt illa í framkvæmd.

Hv. 3. landsk. þm. flytur hér brtt. á þskj. 471, sem er sama efnis og brtt., sem hv. 1. þm. Árn. flutti við frv. um verðlagningu landbúnaðarvara, þ. e. a. s. frv., sem fjallaði um búnaðarráð, um það, að ríkisstj. skuli láta fara fram endurskoðun á l. og leggja niðurstöður þeirra athugana fyrir næsta Alþ. Ég er hv. frsm. n. sammála um það, að svona ákvæði, að l. skuli endurskoðuð og niðurstaðan lögð fyrir næsta Alþ., það er vitanlega þýðingarlaust, og það væri einnig þýðingarlaust að því er snertir l. um verðlagningu landbúnaðarvara. Alþ. hefur það á valdi sínu á hverjum tíma að breyta l., sem sett eru, og ef endurskoðunin leiðir ekki til neinnar niðurstöðu, þá gilda l. áfram, svo að þetta hefur ekkert gildi. Ég tek þetta fram af því, að önnur l. hafa hér verið varin með því, að það eigi að endurskoða þau fyrir næsta Alþ. Á hinn bóginn er ég hv. frsm. einnig sammála um það, að vitanlega er þessi till. með öllu skaðlaus, og ég býst við, að ég geti greitt atkv. með henni, hún getur verið ofur lítil ábending um það að athuga málið.