16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. hefur nú í ræðu gert grein fyrir áliti sínu á þessu máli, og geri ég ráð fyrir, að það sé álit meirihlutamanna yfirleitt á þessu frv.

Það er nú ekki langt mál, sem meiri hl. hefur skrifað um þetta frv. á þskj. 834. Nál. er aðeins þrjár línur og byrjar á yfirlýsingu um það, að n. hafi rætt frv. Öllu má nafn gefa. Frv. þetta var tekið til umr. á fundi n. í gær. Ég vildi gjarnan fá tækifæri til að ræða í n. um einstök atriði frv., en þess var ekki kostum, því að meiri hl. taldi enga nauðsyn til þess og skrifaði í skyndi þetta ýtarlega nál. í þrem línum.

Hv. 2. þm. Rang. virtist vera ánægður með þetta frv. Að vísu hreyfðu sér hjá honum nokkrar efasemdir um ágæti málsins, því að hann sagði, að skeð gæti, að hann bæri fram brtt. við frv. við 3. umr., og taldi, að annar úr meiri hl. mundi gera það einnig. Hv. þm. virtist ekki vera eins hrifinn af þessu máli og því; sem var afgr. hér næst á undan á þessum fundi d., því að hann var svo hrifinn af því, og kom það fram í aths. hans við atkvgr., að nærri lá, að hann sprengdi af sér allar gjarðir og félli í stafi af hrifningu yfir því, að það skyldi ekki beinlínis tekið fram í frv. um gistihús, að bændur mættu ekki koma þar.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, var flutt í þinginu til staðfestingar á brbl. um áhrif kjötverðs á framleiðsluvísitölu, sem ríkisstj. hafði gefið út 29. sept. s. l. Vegna þess að ég er ekki eins hrifinn af þessu frv. og hv. 2. þm. Rang. og meiri hl. n., hlaut ég að gefa út um það sérstakt álit, sem liggur fyrir á þskj. 841, þar sem ég legg til, að frv. verði fellt. Ég vil vísa til þess álits, en get ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um þessa uppfinningu hæstv. ríkisstj., sem hér er á ferðinni.

1. gr. frv. er um það, að við útreikning vísitölunnar 1. okt. 1945 skuli aðeins reiknað með því verði á kjöti, sem talið var í vísitölunni 1. sept. 1945. Síðan segir í 2. gr., að mismun á útsöluverði og vísitöluverði kjöts eigi menn kost á að fá endurgreiddan ársfjórðungslega úr ríkissjóði, þó ekki fyrir meira kjötmagn en 40 kg á mann á ári. En í 3. gr. er svo sundurgreining á því, hverjir eigi að verða þessara hlunninda aðnjótandi og hverjir ekki. Þar eru taldir þeir, sem ekki eiga að fá þessar bætur, og það eru þeir, sem hafa sauðfjárrækt að atvinnu að meira eða minna leyti. Virðist eftir frv. ekki skipta máli, hvort menn hafa stórt bú eða 1–2 kindur. Þá eru í öðru lagi atvinnurekendur, sem hafa 3 menn eða fleiri í þjónustu sinni, þeir eiga ekki að verða sælunnar aðnjótandi og svo ekki heldur þeir, sem fá laun sín greidd að nokkru eða öllu leyti í fæði. Síðan kemur grein um framkvæmdina á þessu, þar segir:

„Skattanefndir eða skattstjóri í hverju umdæmi skulu, um leið og samin er skrá yfir tekju- og eignarskatt, semja skrá um alla þá, sem rétt eiga á niðurgreiðslu á tímabilinu frá 20. sept. næst á undan til jafnlengdar, og skal skráin miðast við síðasta manntal. Um framlagning kjötskrár, kærur, fresti og úrskurði fer eftir ákvæðum þeim, er gilda um skattskrár, eftir því sem við á, þó þannig, að úrskurður yfirskattanefndar um rétt til niðurgreiðslu er fullnaðarúrskurður. — Gjalddagi niðurgreiðslna er á manntalsþingum, og er heimilt að nota þær til skuldajafnaðar við ógreidd þinggjöld hlutaðeiganda.“

Síðan á að ákveða með reglugerð um framkvæmd l., þar á meðal, hvernig koma eigi niðurgreiðslunum fyrir. Þá eru sektarákvæði, og fleira er markvert í þessum brbl. Samkv. 4. gr. brbl. er það verk skattstjóra og skattanefnda að semja skrá yfir þá, sem rétt hafa til að fá niðurgreiðslur. Þetta hefur kostað þessa aðila mikla vinnu um land allt. Skattan. og skattstjórar hafa þurft að fara í gegnum allar skattskrár og sjá það, hverjir af framteljendum þar áttu kindur á því ári, sem er miðað við, og sjá, hverjir hafa haft menn í vinnu, 3 eða fleiri. Svo hafa þeir einnig orðið að athuga, hverjir væru í þeirra umdæmi, sem gætu átt rétt til að fá þessar niðurgreiðslur, þó að þeir hafi ekki haft skattskyldar tekjur eða eignir á því tímabili, sem miðað var við, því að gert er ráð fyrir, að ekki megi útiloka þá alveg, þó að vísu standi í 4. gr., að skráin eigi að vera miðuð við síðustu skattskrá, og skiptir því miklu, hvernig þetta er framkvæmt, fyrir þá, sem ekki hafa haft það miklar tekjur eða eignir, að þeir séu á skattskrá. Síðan hafa þessar kjötskrár verið látnar liggja frammi ákveðinn tíma.

Næst gerist það svo, að ríkisstj. lætur prenta eyðublöð í mjög stóru upplagi, sem menn áttu að fá til útfyllingar. Það varð fyrir nokkrum árum til vísa hér í þinginu um eina n., sem þótti taka málin mjög rækilega til meðferðar. Hún byrjar svona:

Margir hafa heilann þreytt

við hugarhíð ýmiss konar.

En þó að þetta væri sannleikurinn á þeim tíma, komust heilabrotin ekki í hálfkvisti við þau, sem hér eru á ferðinni, þegar fundið var upp þetta skýrsluform. Ég tel víst, að hæstv. ráðh. hafi allir lagt hér saman og kvatt til stuðningsmenn sína á hæstv. Alþ. til þess að finna upp og ganga frá þessari dvergsmíð. Síðan var auglýst í útvarpinu og öllum blöðum, að þeir sem óskuðu að fá niðurgreiðslur á kjötverði, skyldu afla sér þessara eyðublaða í verzlunum og annars staðar þar, sem þau voru höfð til útbýtingar, útfylla þau og senda fyrir ákveðinn dag þeim, sem áttu að borga út þessa upphæð. Menn fóru í búðirnar til að sækja blöðin, settust síðan niður við að skrifa, og það var ekki vandalaust að útfylla þessi blöð. Á þeim stendur meðal annars: Ég hef á tímabilinu, síðan kemur eyða, — keypt kindakjöt, nýtt, saltað o. s. frv. Síðan er eyða til að setja, hvar menn hafi keypt það. Þá átti að láta á þetta blað nöfn allra heimilismanna, stöðu þeirra og fæðingarár. Þeir, sem ekki höfðu keypt kjöt hjá verzlunum, heldur keypt mat á matsölu, áttu að greina frá því, hvar þeir hefðu keypt tilbúinn mat og hvort kjöt hefði verið þar með, hvað þeir hefðu greitt fyrir það á mánuði. Síðan kemur klausa, sem hljóðar svo: „Ég legg við drengskap minn, að þessi skýrsla er rétt.“ Loks kemur svo eiginhandarundirskrift. — Þetta var mjög umtalað á þeim tíma, sem þetta var að gerast, og hefur meðal annars orðið yrkisefni sumra hagyrðinga. Ég minnist þess, að ég heyrði eitthvað af kveðskap um þetta. Eitt af því var svona:

Það veit hver, sem heyrir og sér,

að hér á voru landi er

farsæl þróun. Allt, sem við höfum etið

síðan í október, skal nú skráð

á skjöl, sem fara upp í stjórnarráð.

Það gildir þó til að byrja með bara um ketið.

Af hrút eða gimbur? Hvort var það

hangið, fryst eða spaðsaltað?

Hvar það var keypt og hvenær þetta skeði.

Allt þetta er skylt að skrifa inn

á skýrslublöðin. Og drengskapinn

setja menn, eins og venjulega, að veði.

Það er nú drengskapurinn, sem alltaf er gripið til, þegar trygging á að vera fyrir því, að allt sé rétt. Við þekkjum það frá skattaframtölunum, og þótti ýmsum rétt að heimta þetta líka í þessu tilfelli. Það er líka útlátalaust að láta það, það er ekki krafizt neinna veðbókarvottorða, sem menn þurfa að fá hjá yfirvöldunum, eins og þegar þeir veðsetja húseign eða annað slíkt.

Ég er ákaflega hræddur um að mörgum hafi reynzt erfitt að útfylla nákvæmlega þessi blöð, og geri ráð fyrir, að menn hafi yfirleitt ekki vitað svo nákvæmlega, hvað þeir keyptu þennan þriggja mánaða tíma af nýju, söltuðu eða reyktu kjöti, að þeir hafi getað verið alveg vissir um, að þarna hafi engu skeikað. Menn urðu að skrifa eitthvað á þessi blöð, og síðan áttu þeir, sem búa hér í Reykjavík, að koma þessari framleiðslu sinni á tollstjóraskrifstofuna fyrir ákveðinn dag, og þar var þessum skýrslum hrúgað upp í þúsundatali. En nú voru góð ráð dýr, því að það er svo um þá opinberu skrifstofu, að þar er nóg að gera við þau störf, sem hún á aðallega að vinna, en það er innheimta tolla og ýmissa skatta, sem tollstjóra er falið að innheimta, og hans starfslið er ráðið með tilliti til þess, hvað þetta er umfangsmikið starf. En svo bætist þetta ofan á. Þá var farið fram á það við starfsfólk stofnunarinnar, að það tæki að sér í eftirvinnu, helgidagavinnu og næturvinnu að glugga í þessi blöð, yfirfara þau og leiðrétta og bera saman við kjötskrána frá skattstofunni. Þarna voru 10–20 manns langan tíma eftir venjulegan vinnutíma, oft fram á nótt, að hræra í þessari kjötsúpu ríkisstj. fyrir 15 kr. kaup um klukkustund, og þrátt fyrir það mun hafa brunnið við í pottinum. Þetta mun hafa verið rétt áður en ríkisstj. gaf út reglugerð um kaup opinberra starfsmanna fyrir eftirvinnu, en ef hún hefði verið komin í gildi, hefðu þeir fengið meira en 15 kr. um klst. fyrir þessa vinnu, því að samkv. þessari reglugerð kemst eftirvinnukaupið upp í 28,50 kr. um klst. Ég tel mikið vafamál, á hvaða heimild þessi reglugerð er reist, vegna þess að þegar launalagafrv. var til meðferðar í fyrra, var tekið út úr því ákvæði, sem var þar um, að ríkisstarfsmenn skyldu fá sérstaka borgun fyrir eftirvinnu, en ég fer ekki út í þetta hér frekar, það snertir ekki þetta mál svo mikið. Svo þegar búið var að blaða í skjölunum, var auglýst, að féð væri borgað út. Þá gerðu menn sér ferð í þessa skrifstofu til þess að taka á móti peningunum. En ýmsir af þeim, sem höfðu gert kröfu, voru þá ekki á kjötskrá skattstofunnar, og þá urðu þeir að fara til skattstofunnar og fá skýringu á því, og ef ekki fékkst leiðrétting, þá var ekki önnur leið fyrir hendi en að fara til yfirskattanefndar og áfrýja málinu þangað. Allt hefur þetta kostað mikinn tíma og fyrirhöfn. En við útborgun á þessu fé hafði ríkisstj. haft þá fyrirhyggju að láta prenta sérstök bankaávísanahefti, til þess að nota við þetta hátíðlega tækifæri, og þeir, sem voru á kjötskránni, fengu þessa ávísun hjá tollstjóra og urðu svo að, fara með hana í bankann til þess að breyta henni í peninga.

En þegar búið var að borga út fyrir þetta þriggja mánaða tímabil, kom það upp, að ríkisstj. var ekki búin að bíta úr nálinni í þessu máli, því að einn höfuðstaðarbúi kom með kröfu til tollstjóra um viðbótarborgun fyrir þetta sama tímabil og kvaðst hafa keypt hangikjöt, og þess vegna ætti hann að fá meira en upphaflega hafði verið borgað, vegna þess að meiri munur væri á vísitöluverði og útsöluverði á hangikjöti en nýju kjöti. En stj. hafði látið framkvæma greiðsluna þannig að reikna allt út eftir mismun á verði á nýju kjöti. Þessi maður taldi sig eiga þarna kröfu ógreidda. Honum var illa tekið bæði hjá tollstjóra og í stjórnarráðinu, og heyrði ég sagt fyrir fáum dögum, að hann mundi vera að undirbúa málshöfðun á ríkisstj. til að fá viðbótargreiðsluna. Ég veit ekki, hvernig málið kann að fara fyrir dómstólunum, en mér sýnist, að maðurinn geti átt þarna kröfu á ríkisstj., vegna þess að það er skýrt fram tekið í 2. gr. frv., að menn eigi kost á að fá greiddan mismun á útsöluverði og vísitöluverði þess kjöts, þar á meðal hangikjöts, sem nefnt er í 1. gr. Mér skilst því, að þessi krafa mannsins kunni að hafa haft við rök að styðjast. Sama máli gegnir um það, ef menn hafa keypt kjöt og mismunurinn á útsöluverði og vísitöluverði hefur verið meiri en kr. 4,35. Það gæti því komið fyrir, að það yrði að hefjast síðar önnur útborgun fyrir þetta sama tímabil og menn fengju atvinnu við að reikna út hangikjötsuppbætur sérstaklega fyrir þann sama tíma. En um það skal ég engu spá, það fer eftir því, hvernig um málið fer fyrir dómstólunum.

Það lítur út fyrir, að stj. og stjórnarflokkarnir hafi komizt að raun um það við meðferð þessa máls á síðustu stundu í hv. Ed., að vissara væri að slá þarna varnagla, því að þeir hafa gert þá breyt. á frv. við 3. umr. í Ed. að takmarka rétt manna til að innheimta mismun á útsöluverði og vísitöluverði á kjöti við verð á nýju kjöti, svo að ef frv. verður samþ., þá eiga þeir, sem hér eftir kaupa kjöt, þótt eitthvað af því sé hangið, ekki að fá meira en kr. 4,35 fyrir kg greitt sem mismun. En slík löggjöf gildir ekki fyrir liðinn tíma, því að brbl. gilda enn í dag.

Þetta er nú að því er viðkemur fyrirkomulagi á þessum niðurgreiðslum. En hv. Ed. hefur gert nokkrar fleiri breyt. á frv., hún hefur einnig sett inn ákvæði um það, að þessar niðurgreiðslur skuli fara fram á manntalsþingum. Einn hv. þm. í Ed. sagði mér, að ætlunin væri að haga svo til, að allir, sem á kjötskrá væru, fengju jafnan skammt. Mér skilst, að til þess sé hugsað að hætta söfnun á kjötskýrslum. En ég spái engu um, hvort hætt verði eða áfram haldið að reyna að bæta ástandið: Hins vegar er sem eigi blási byrlega eftir því, hversu Ed. hefur gengið frá frv.

Annað mætti og fremur athuga en skýrslugjafirnar sjálfar. Með þessu frv. er landsmönnum skipt í tvo flokka, hvítan og svartan í augum hæstv. ríkisstj. Í öðrum flokknum eru þeir, er peninga fá launþegarnir, og skiptir engu máli, hvernig ástæður þeirra yfirleitt eru. Í hinum flokknum eru atvinnurekendur o. fl. Þetta er ekki eina dæmið um, að smærri atvinnurekendur virðast ekki eiga upp á pallborðið hjá hæstv. ríkisstj. En hún álítur, að eigi sé sama, hverjir þeir eru. Ef um hlutafélög er að ræða, þá á það ekki að skipta neinu máli, þótt þar sé raunar um fjölskyldufyrirtæki að ræða, hjón myndi meiri hlutann í stj., en aðalfund sé hægt að halda í hjónarúminu. Aðalatvinnurekandinn fær kjötuppbætur. Ef menn hafa reksturinn á eigin nöfnum og hafa ekki brotizt í því að mynda gervifélög, þá eru þeir 2. flokks atvinnurekendur að dómi stjórnarinnar og mega ekki fá hlunnindi þau, er hér eru veitt. Það út af fyrir sig gerir ekkert til, þótt hæstv. ríkisstj. geri sig hlægilega í augum manna, enda ekki skaðlegt. En hér kemur ranglætið til álita, og á móti því þarf að vinna.

Fleira er í frv., og verð ég að minnast á sumt varðandi kjötsöluna, sem er í beinu sambandi við ákvæði þessa frv. Um leið og breyt. var gerð á niðurgreiðslunum, þá varð og sú breyt. á álagningunni á kjöt, að smáverzlanir máttu reikna sér meira en áður. Fyrr var álagningin reiknuð að frádregnu ríkisframlaginu, þ. e. miðað við smásöluverð, en nú er kjötið selt fullu verði úr verzlununum, og kaupmenn reikna álagningu á hærra verð en áður. En verðlagsnefnd landbúnaðarafurða hefur ekki þótt smásöluálagningin nógu mikil og hækkar álagninguna úr 13% upp í 14%. Kjötverzlanir fá nú 58 aurum meira fyrir að selja hvert kg af kjöti en árið áður, og eftir útlitinu nú að dæma, þá benda öll líkindi til, að hækkunin muni nema alls um 3 millj. króna. Hækkun á álagningu er 77%. Á hinn bóginn er verðið til bænda samtímis ákveðið af kjötverðlagsnefnd 10% lægra en það, sem framleiðendur áttu að fá. Í þessu er ranglæti fólgið, og get ég því ekki sætt mig við frv. þetta. Hv. 2. þm. Rang. kvað ríkissjóð hafa sparað mikið fé með þessu. En ég segi: Þótt hægt sé að spara nokkur útgjöld með því að gera upp á milli manna, þá á ekki að gera það. Sparnaður sá, er hér um ræðir, er með slíkum rangindum, að hann á engan rétt á sér. Þessi sparsemi er alls ekki sæmileg. Hvaða útgjöld koma hér á móti? Allt þetta skýrsluhald, kjötskrár o. fl. kostar heilmikið. Hvað kostar það að hafa hér í Reykjavík fjölda manna í eftirvinnu og næturvinnu til að grúska í öllum þessum pappírum fram á nætur? Hvað kostar þetta einstaklingana? Hvað ætli það kosti menn, að þeir séu látnir rjátla á milli skrifstofa hér í bænum, frá Heródesi til Pílatusar? Þeir verða að koma sjálfir, fella því niður vinnu og sleppa háu kaupi til þess að ná í þetta. Hér er um mikil útgjöld að ræða. Framkvæmdirnar eru bæði fávíslegar og fáránlegar. Ég veit ekki, hve mikill sparnaðurinn muni verða. En hitt veit ég, að margur hefur orðið doktor fyrir minna en að reikna allt þetta út, og geri ég eigi þá kröfu til hv. 2. þm. Rang. — Annars býst ég ekki við svörum frá hæstv. ríkisstj. um þetta atriði.

Að endingu vil ég svo benda á það, að þess er engin þörf að staðfesta þessi brbl., af þeirri ástæðu, að hæstv. ríkisstj. hefur þegar önnur l. að styðjast við, og getur innt greiðslurnar af hendi hvort eð er. Að minni hyggju er ekki sæmandi fyrir Alþ. að staðfesta þetta frv. Margir eru beittir rangindum. Er aftur á móti sjálfsagt að fella það. — Ég held, að hæstv. ráðherrar og alþm. eigi fremur að eyða kröftum sínum að öðru gagnlegra en að beita sér fyrir þessari vitleysu. Væri og bezt fyrir hið nýstofnaða lýðveldi, að þetta hyrfi úr sögunni sem allra fyrst.