16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Páll Zóphóníasson:

Ég vildi byrja að lýsa því yfir, að við það frv., sem hér er verið að ræða um, er þó einn góður hlutur, að með því er kveðinn niður allur rógur um það, að niðurgreiðslurnar á kjötverðinu væru sérstaklega greiðslur til bænda og gerðar fyrir bændur. Og þetta vegur þó nokkuð upp á móti þeim vitleysum, sem í frv. eru og hv. þm. V.-Húnv. er búinn að lýsa töluvert mikið.

Í sambandi við þessar niðurgreiðslur langar mig til að fá upplýsingar hjá hæstv. landbrh. Það er búið að greiða þetta í fyrsta skipti fyrir fjórðung úr ári. Og það fyrsta, sem mig langar til að vita, er, hve margir menn hafi fengið niðurgreiðslur á landinu og hve miklu þessar niðurgreiðslur nemi. Það er það langt síðan þetta var gert, að þetta hlýtur nú að liggja alveg fyrir. Og ég spyr um þetta m. a. af því, að það er um það deilt manna á milli.

Það er líka deilt um það víða á landinu, hve kjötneyzlan yfirleitt er mikil. Hv. frsm. þessa máls hér í hv. d. vildi halda því fram, að hún væri 60 kg á mann. Það er fjarri öllum sanni. Mér er nær að halda, að hún sé ekki nema 40 kg á mann. En þar að auki kemur svo kjöt af heimaslátruðu fé, sem er notað heima á búunum, þar sem það er framleitt, og hve mikið það er, getur enginn sagt nákvæmlega. Hins vegar geta menn vitað, hve mörgum kindum er slátrað á heimilunum eftir innlagðri gærutölu, og út frá því er hægt að sjá nokkurn veginn kjötneyzluna, með því að áætla meðalþyngd kroppanna.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðh. að því, hvað hafi komið honum til þess að láta sig henda það að fleygja í smásalana af kjötverðinu kringum 3 millj. kr. meira en í fyrra. Voru þessir aumingja smásalar kjötsins svo hræðilega illa staddir, að það þyrfti að taka þessa peninga úr ríkissjóði til þess að láta þá hafa? En hefði þessum niðurgreiðslum verið hagað líkt og áður var gert, þá hefði þetta ekki komið fyrir, þá fengu þeir ekki sölugróða af niðurgreiðslunni. Ég veit að vísu, að ýmsir menn, sem að ríkisstjórninni standa, eru miklir vinir kaupmanna. En ég taldi ekki hæstv. landbrh. neitt sérstaklega í þeirra hópi. Ég veit þess vegna ekki, hvaðan þetta kemur. En með þessum ráðstöfunum hækkar hann hlut smásalanna um 77% frá árinu áður — á sama tíma og hann lætur kjötverðið til bænda lækka að minnsta kosti í hlutfalli við dýrtíðina eða framleiðslukostnaðinn. Á þessu langar mig að fá skýringar.

Þá vildi ég mega vænta þess, enda þótt það sé ekki í sambandi við þetta mál, að hæstv. landbrh. gerði mér þann greiða og kannske fleirum hér í þinginu að svara annarri spurningu. Það var í sept. í haust ákveðið, að mjólkurverðið skyldi vera 182 aurar, en að mjólkin skyldi verða seld fyrir 22 aura lægra verð, þar sem ríkissjóður greiddi niður verðið, þennan mismun. Þá benti ég á það, að það væri ekki rétt að hafa mjólkurverðið eins um allt land. Því var engu svarað, eða það a. m. k. ekki tekið til greina. Nú hefur þetta orðið svo síðan í september, að mjólkurverðið úti um landsbyggðina er frá kr. 1,60 á lítra og upp í liðugar 2,00 kr., þar sem það er hæst. Og bændur, sem eftir sex manna nefndar álitinu eiga að fá 135 aura fyrir mjólkurlítrann, fá fyrir hann milli 110 og 120 aura og upp í 180 aura fyrir lítrann, eftir því hvar þeir búa á landinu. Mig langar til að heyra frá hæstv. landbrh., — þó að ég fari ekki fram á sérstaklega, að hann svari því við umr. um þetta mál, sem fyrir liggur, — á hverju þetta byggist og hvers konar eftirlit það er með þessum hlutum, að bændur fá svona misjafnt verð fyrir mjólkina, sums staðar það, sem þeir eiga að fá fyrir hana, og sums staðar ekki það, sem þeir eiga að fá. Ég óska þess vinsamlegast, að hæstv. ráðh. svari þessu um mjólkurverðið, en get hins vegar ekkert sagt, þó að hann svari þessu ekki, þar sem þetta er annað mál en það, sem fyrir liggur. En það þarf að ráða bót á þessu, og því bendi ég ráðherra á það.