16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Hv. 2. þm. N.-M. spyr um það, hve margir hafi fengið niðurgreiðslu á kjötverði og hve miklu niðurgreiðslurnar nemi. Því miður get ég ekki svarað þessari spurningu hans, þegar af þeirri ástæðu, að ég hygg, að mjög lítið liggi fyrir af skýrslum um það í viðskiptamálaráðuneytinu. Það væri hægt að fá að vita, hve mikið er búið að borga út af þessu hér í Reykjavík, því að niðurgreiðslum hér er sennilega lokið. En ég er ekki svo viss um, hver upphæðin var, að ég þori að segja ákveðið um það. En utan af landi voru a. m. k. fyrir skömmu komnar fáar skýrslur um þetta. —- Þá spyr hv. 2. þm. N: M. um það, og er þar allundarlega spurt, — hvaða ástæða hefði verið til þess að fleygja í smásalana 3 millj. af andvirði kjötsins á s. l. verðlagstímabili. (PZ: Fram yfir það, sem var á undanförnu ári). Ég þykist vita, að það, sem hv. 2. þm. N.-M. á við með þessari spurningu, sé, hvaða ástæða sé til þess, að smásöluálagning á kjöt var á s. l. hausti eftir langvarandi samninga hækkuð úr 13% upp í 14%. Ég þarf náttúrlega ekki að svara hv. þm. þessu hér, því að hann veit það, að þegar sumarslátrun átti að byrja í sumar, neituðu kjötsalarnir hér í Reykjavik að verzla með kjöt, og var þar Sláturfélag Suðurlands eitt með öðrum í broddi fylkingar. Sláturfélag Suðurlands er nú samvinnufyrirtæki bænda, sem ætti að gæta a. m. k. ekki síður þeirra hagsmuna en neytendanna. Og ég geri ráð fyrir, að hv. 2. þm. N.-M. hafi þann aðgang að þessu fyrirtæki, að hann geti fengið upplýsingar hjá því beint um það, hvaða ástæða lá til þess, að það beitti sér fyrir þessum samtökum sérstaklega um álagninguna. Hitt ætti hv. 2. þm. N.-M. að vita vel, að þetta er mál, sem ég hef ekki komið nærri á nokkurn hátt. Það voru kjötsöluyfirvöldin, sem komust að þeirri niðurstöðu, að ekki væri um annað að gera en að láta undan þessum kröfum verzlananna. Ég hafði engin afskipti af þessum gerðum verðlagsn. En hv. 2. þm. N.-M. virðist líta svo á, — og það eru kannske einhverjar gamlar endurminningar þess valdandi, — að kjötverðlagsn. hafi ekki verið annað en þægt verkfæri í minni hendi. En honum er óhætt að trúa því, að það hafa orðið straumhvörf í þessu efni. Hvorki hef ég gert tilraun til þess að hafa áhrif á verðlagsn. né heldur mundi það hafa þýtt fyrir mig, því að n. er nú þeim mönnum skipuð, að hún mundi ekki hafa látið svo stjórna sér. Og ég get fullvissað hv. 2. þm. N.-M. um það, að kjötverðlagsn. hefur aldrei verið betur skipuð til þess að sjá um hagsmuni framleiðenda en nú. Enda ætti það að vera, þar sem n. er skipuð mönnum úr öllum fjórðungum landsins. (HelgJ: Að þeir séu betri en samþm. minn, hv. 2. þm. Rang., mótmæli ég). Hann var ekki einn í kjötverðlagsn. á sínum tíma, það ætti hv. 1. þm. Rang. að vita eins vel og ég. — Ég skal engan dóm á það leggja, því að ég tel mig ekki bæran um það, hvaða stefnu hefði átt að taka í þessu efni á síðasta sumri. Getur vel verið, að hv. 2. þm. N.-M, hefði þótt ákjósanlegra að stöðva kjötsöluna ákveðinn tíma og setja svo ríkisverzlun með kjötið og taka búðirnar leigunámi. Það hefði verið gert, ef ekki hefði verið um annað að ræða, því að það er ekki hægt að stöðva kjötsöluna til langframa í bænum. En ég held, að þessi 1% hækkun hafi verið heppilegri en að leggja út í styrjöld þá, sem hefði leitt af því því að selja kjötið ekki um nokkuð langan tíma.

Hv. 2. þm. N.-M. talaði um, að ríkisstj. stæði nokkuð nærri kaupmönnum. Hann á þar sennilega þó við verðlagsnefnd. Ég hélt, að enginn maður í þeirri n. hefði verðlagshagsmuna að gæta í þessu efni fyrir sjálfan sig sem kaupmaður. Og ég skil ekki, að nokkur sæmilega hugsandi maður láti sér koma til hugar, að þessi n. hafi gert annað en það, sem hún taldi réttast, og það, sem hún taldi til hagsmuna fyrir þá. sem hún átti að vinna fyrir. (SvbH: Ríkisstjórnina). Það er nú svona, að menn hugsa hver á sinn veg, og ég lái hv. þm. V.-Sk. og hv. 2. þm. N.-M. það ekki, þó að þeir ætli öðrum það, sem þeir kannske mundu gera sjálfir, ef því væri að skipta.

Þá var hv. 2. þm. N.-M. að gera fyrirspurn um mjólkurverðið, og mér mundi vera ljúft að svara þeirri spurningu, sem hann bar fram um það, ef ég væri þess umkominn. Hann segir, að mjólkurverðið á landinu hafi verið frá því í haust s. l. frá 2 kr. niður í 1 kr. og 60 aura. Mér er ekki kunnugt um, hvar mjólkurverðið hefur farið upp í 2 kr. Er það í Vestmannaeyjum? (PZ: Ég upplýsi það seinna). Ég veit, að eftir þrábeiðni var talað um að hækka það þar, en hvort það var gert, veit ég ekki. En hv. 2. þm. N.-M. veit, að ákveðið hefur verið verðið á mjólkinni 182 aurar á lítra. Hann veit, að þeir, sem flytja mjólkina í mjólkurbúin, fá þetta fyrir mjólkina. Hitt var ákveðið, að þeir, sem seldu mjólkina beint til neytenda, fengju kr. 1,60 fyrir lítrann, og til mín hefur engin kvörtun komið frá þeim, sem seldu mjólkina á kr. 1,60. Og það hefur ekki verið amazt við því, að þeir taki eitthvert lágt flutningsgjald fyrir að flytja mjólkina heim til manna. Og ég hygg, að þessir menn séu sízt verr settir en þeir, sem láta senda mjólkina í búin og hafa kostnað við það, þó að þeir síðar nefndu fái 22 aur, meira fyrir mjólkurlítrann. Þennan mismun á verði mjólkurinnar, eftir því, hvort hún er seld beint frá framleiðendum til neytenda eða gegnum mjólkurbúin, greiðir ríkissjóður aftur á móti, eins og hv. þm. er kunnugt. Ef það er rétt, að mjólkurverðið hafi verið sett upp í 2 kr. á einhverjum stöðum, þá er það alveg vafalaust fyrir bein og ákveðin tilmæli frá þeim stöðum, og þá vænti ég ekki síður frá neytendum en framleiðendum. Ég skil naumast, að um aðra staði geti verið að ræða í því efni en Vestmannaeyjar.

Þá þykist ég hafa svarað svo miklu sem ég get af fyrirspurnum hv. 2. þm. N.-M.