16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Og ég hafði margt upp úr því, sem ég ekki vissi áður. Sumt af því, sem hann sagði, skil ég ekki, í sambandi við það, sem þó hefur verið upplýst um hér í. hv. deild. Hæstv. atvmrh., Áki Jakobsson, — ég veit ekki að öllu leyti með hvaða ráðuneyti hann fer, — upplýsti t. d. hér í vetur í hv. þd., að það hefði ekki verið hægt að ákveða verðið á kjötinu í haust fyrr en ríkisstj. hefði verið búin að koma sér saman um, hvað það ætti að vera. En nú kemur hæstv. landbrh. og segir, að þetta hafi verið ríkisstj. alveg hreint óviðkomandi, hún hafi ekki komið nærri því. Hvorum þessara góðu manna á ég fremur að trúa? Það getur hæstv. landbrh. náttúrlega ekki sagt mér. Og ég hef ekki heldur gögn til að rannsaka það, hvorum þeirra ég á að trúa betur. En annar hvor þeirra segir ósatt. (Fjmrh.: Eða sá þriðji). Það hefur komið fyrir áður, að það hafa verið gefnar út yfirlýsingar af tveimur ráðh. sín á hvora lund um sama efnið, og það í blöðum, svo að menn vita ekki í slíkum kringumstæðum, hvort er frekar satt.

Nú vil ég enn fá upplýsingar um eitt. Þegar mjólkurverðið í haust var hækkað, þá var það látið vera óbreytt t. d. á Patreksfirði. Þar hafði mjólkin áður verið seld á kr. 1,60 lítrinn. Einn maður kaupir þar mjólkina og selur hana út úr sinni búð, og bændur hafa þá fengið fyrir hana kr. 1,20 fyrir lítrann, og þeir sættu sig við það, þó að þeim bæri að fá kr. 1,23 fyrir lítrann. Þetta var svona áður en mjólkin var hækkuð. Svo kom tilkynning um það, að mjólkurverðið mætti fara upp í kr. 1,82 lítrinn, og þeir fóru náttúrlega að reyna að hækka mjólkina þarna á þessum stað. Þeir símuðu suður til verðlagsn. og búnaðarráðs, en þeir sögðu hér syðra, að ekki mætti selja mjólkina fyrir meira en kr. 1,60 lítrann. Og enn fá bændur fyrir mjólkina ekki nema kr. 1,20 fyrir lítrann, þó að komin sé ný vísitala, sem segir, að þeir eigi að fá kr. 1,35 fyrir lítrann. Ætlar ríkissjóður að greiða mismun þarna á mjólkurverði? Ég get tekið fleiri staði og nefnt dæmi svipuð þessu, tvo staði úti á landi, þar sem bændur fá út úr mjólkursölunni það, sem þeim ber, og aðra, þar sem þeir fá minna.

Viðvíkjandi svari hæstv. landbrh. viðkomandi kjötkaupmönnunum, þá setti hann sitt svar fram að vissu leyti með því að vísa í það, að Sláturfélag Suðurlands hefði haft forgöngu í því að hækka álagninguna upp í 14%, um 1% frá því í fyrra. En þeir sættu sig í fyrra við 13% af 5,75 kr. verði. En þeir fengu nú 14%, og af því að breytt var til um fyrirkomulag um niðurgreiðslur, fá þeir það af 9,52 kr. verði. Þessir menn fá svo miklu meira en í fyrra, að þeir fá nú 1/8 til 1/7 af allri niðurgreiðslunni. Þetta fer beint til kaupmanna, af því að breytt var til um fyrirkomulag á niðurgreiðslunni. Áður var niðurgreiðslan greidd beint til sláturleyfishafa, sem greiddi hana svo beint til þess, sem kjötið átti. Þá var engin smásöluálagning tekin af niðurgreiðslunni. Nú rennur þetta til kaupmanna sem styrkur, þessi 14% af niðurgreiðslunni. Og það er á þennan hátt, sem kaupmaðurinn fær megnið af þessum 3 millj. kr. Það var þessi sérstaki velvilji til kaupmanna, sem á engan hátt er hægt að kenna verðlagsnefnd né búnaðarráði. Þetta var frá ríkisstjórninni. Það var ríkisstj., sem fann upp á því að breyta til um greiðsluna, til þess að kaupmaðurinn gæti fengið 58 aura af niðurgreiðslunni, — bara til þess.

En eins og ég sagði áðan, þá er við þetta mál einn góður kostur, að kveðinn er niður rógurinn um það, að þetta væru greiðslur til bænda. En það var keypt dýru verði, þar sem það kostaði 3 millj. kr. Það hefði sjálfsagt verið hægt að koma því fyrir á ódýrari hátt.