16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Hv. 2. þm.. N.-M. sagði, að hæstv. atvmrh. (ÁkJ) hefði sagt, að ekki hefði verið hægt að ákveða á síðasta hausti kjötverðið fyrr en ríkisstj. hefði verið búin að koma sér saman um það. En hv. þm. sagði, að maður, sem héti Áki Jakobsson og ætti sæti í landsstjórninni, en hann vissi ekki með hvaða mál færi, hefði sagt þetta. Ég vil nú spyrja hv. þm., hvort þeir álíti, að það verði tekið ákaflega mikið mark á því, sem maður fer með, sem er ekki meira með sjálfum sér en það, að hann veit ekki, hvaða ráðuneyti hver ráðh. fer með. Enda dettur engum í hug, að nokkur ráðh. hafi sagt þetta. Jafnvel þó að þetta hefði verið satt, sem enginn trúir, þá hefði ráðherrann aldrei verið svo heimskur að játa þetta fyrir öllu þinginu. Og þó að hv. þm. séu með þessar stöðugu yfirlýsingar um það, að ríkisstj. hafi í raun og veru ráðið verðlaginu á kjötinu á síðasta hausti, þá er það náttúrlega eitt af þeim málum, sem þýðir ekki að endurtaka eins oft og gert hefur verið. Því að það er ekki algild regla, að lyginni verði trúað, ef hún er nógu oft endurtekin. Það eru í verðlagsn. nú menn, sem ekki láta nota sig gegn þeim hagsmunum, sem þeim er trúað fyrir.

Hv. 2. þm. N.-M. getur ekki gert ráð fyrir, að ég svari hér, án þess að mér sé gert aðvart fyrirfram, sögum, sem hann kemur með utan af landi. Það hafa ekki komið til mín kvartanir um þetta, og meðan svo er, getur hann ekki búizt við, að ég geti svarað, hvernig sé háttað um þetta og þetta. Hv. 2. þm. N.-M. veit, hvaða hámarksverð var sett á þessar vörur í haust. Og ef menn úti um land hafa ekki farið eftir því hámarki, er það ekki mín sök, en þeir hafa heimild til að fara í það hámark, sem ákveðið var. En ég játa, að ég frétti ekki eins mikið af sögum víðs vegar utan af landi og þessi hv. þm. gerir.

Þá minntist hv. 2. þm. N.-M. á smásöluálagninguna á kjöti á s. l. hausti. Hann sagði, að þessi 1%, sem bætt var við, skipti ekki miklu máli, en aðalatriðið væri, að álagningin væri miðuð við hærra verðlag en hefði verið á síðasta hausti þar áður. Þetta er rétt. Hún var miðuð við hærra verðlag, af þeirri einföldu ástæðu, að kjötverðið hækkaði. En ef hv. 2. þm. N.-M. heldur, að sú hækkun á verði á kjöti þýði einungis hagnað fyrir þá, sem selja kjötið út úr búðum, þá er hann verr að sér í þessum málum en hann hefur leyfi til að vera sem gamall form. kjötverðlagsn. Kaupmenn segja, að rýrnun á kjöti verði því meiri sem verðið er hærra fyrir það. Ég skal ekki fullyrða um, hvort kaupmenn eru betur settir með álagninguna eftir að kjötverðið hækkaði. Það getur verið. En hitt þýðir ekki að reyna að telja mönnum trú um, að hækkunin sé einvörðungu þeirra hagnaður.

Þá skal ég svara örfáum orðum því, sem hv. þm. V.-Sk. sagði. Hann byrjaði á því að kyrja þá gömlu sögu, sem oft er búið að svara hér í hv. þd. og annars staðar, að með l. um áhrif kjötverðs á vísitölu sé þegnunum mismunað, af því að sumir fái niðurgreiðslu, en aðrir ekki. En þessi hv. þm. er of greindur til þess að hann skilji þetta ekki, að ef ekki hefði verið farin þessi leið, sem farin var í þessu atriði, þá hefði mönnum verið mismunað. Kjötið er borgað niður til þess að þeir, sem atvinnu reka, geti sloppið við að borga það hækkaða kaupgjald, sem hækkun á vísitölunni hefur í för með sér. Og ef þeir fengju með því að sleppa við að hækka kaupgjald nákvæmlega það, sem greitt er niður kjötið með, og keyptu svo kjötið með lægra verðinu, fengju þessir menn tvöfaldan gróða, sem felst í því að sleppa við að hækka kaupgjald, og þann gróða, sem í því felst að fá kjötið við lægra verði keypt en ef það væri ekki greitt niður. Hvað kjötframleiðendur snertir í þessu efni, þá verða þeir að sæta sömu örlögum og aðrir atvinnurekendur. En hv. þm. hlýtur að skilja það, að það hefði verið óframkvæmanlegt, ef bændur hefðu átt að fá niðurgreiðslu á verði kjöts, sem þeir sjálfir neyttu, vegna þess að það er alveg ómögulegt að hafa eftirlit með því, hvað þeir leggja til sinna eigin heimila af kjöti.

Hv. þm. V.-Sk. kvartar yfir því, að þm. hafi fengið málið svo seint, að þeir kæmust ekki til að bera fram brtt. fyrr en á síðustu stundu. Nú vil ég síður en svo mæla þessu bót. En þetta frv. hefur legið alllengi fyrir þessari hv. þd., svo að það hefur verið nægur tími til þess að athuga það.

Ef hv. þm. hefur lesið frv., þá misskilur hann það gersamlega. Hann talar um, að það fólk, sem verst sé sett, eins og t. d. skólafólk, fái engar niðurgreiðslur, enda þótt aðrir, sem betur eru settir, fái þær. En þetta er hinn mesti misskilningur. Í 3. gr. 3. lið segir, að þeir, sem fá laun sín greidd að öllu eða nokkru leyti með fæði, hafi ekki rétt til niðurgreiðslu, og vitanlega er engin skynsemi í því, að þeir, sem fá laun sín greidd í fæði, fái rétt til niðurgreiðslu, af þeim ástæðum, að fæðið hækkar ekki neitt, en um leið og menn hætta að taka kaup í fæði, fá þeir niðurgreiðslur eins og verið hefur. Hitt er svo annað mál, að fólk getur orðið eitthvað eftir á, vegna þess hvernig hagar til með skattstigann, en það er ekki hægt að fara aðra leið en að semja kjötskrá eftir skattaskýrslum. Ef breyt. verður á kjörum manna á því tímabili., geta þeir kært og fengið sig tekna inn á kjötskrána, og ef menn ætla að taka kaup í fæði, þá er þess getið þegar skattskráin er samin. Þetta hafa hundruð og þúsundir manna gert. En það er ekki hægt að kenna þeim, sem l. setja, um það, þó að einhverjir missi rétt sinn af vangá, það hefur sjálfsagt komið fyrir, að einhverjir hafi ekki athugað þetta og þar af leiðandi ekki kært sig inn á kjötskrána. Ég segi það eins og það er, að ég nenni ekki að vera að stæla mikið lengur um verðlagsn. landbún. aðarafurða, þetta er svo margendurtekinn söngur hér í þessari hv. d., að það er tilgangslaust að svara því öllu meira. Hv. þm. V.-Sk. sagði, að ég hefði skipað alla verðlagsn. Þetta er náttúrlega misskilningur hjá honum, sem kemur af því, að hann hefur ekki athugað lögin. Við munum, að búnaðarráðið er 25 menn, skipaðir af landbrh., en verðlagsn. er kosin af búnaðarráði. Ég held, að óhætt sé að segja, að síðan hið opinbera fór að skipta sér af verðlagningu landbúnaðarafurða, hafi aldrei verið búið eins vel að landbúnaðinum og gert er með skipun búnaðarráðs, það er skipað valinkunnum bændum úr flestum héruðum landsins, sem svo eiga að velja þá menn, sem eiga að verðleggja landbúnaðarafurðirnar. En þetta hefur ekki verið gert fyrr en núverandi ríkisstj. hlutaðist til um það á s. l. sumri, og ég veit, að hv. þm. skilur það vel, að það er ekki sama, hvort landbrh. velur alla mennina sjálfur í verðlagsn. eða það er slíkt 25 manna ráð, sem kýs menn í þá nefnd. En hvað sem þessu líður, er dálítið vafasöm sú siðferðiskenning, sem fram kemur hjá honum, að slíkri n. sem þessari sé skylt að hlýða því, sem húsbóndinn segir henni. Til hvers er þessi n. skipuð? Hún er skipuð til þess að sjá um hagsmuni bænda, en ekki hagsmuni ríkisstj. Hennar hlutverk gat ekki verið annað. Og ég vil illa trúa því, að þessi hv. þm. sé í rauninni þannig hugsandi, að hann mundi undir þeim kringumstæðum skilmálalaust hlýða húsbónda sínum, ég held, að hann sé of skapstór maður til þess.

Hins vegar kom það fram hjá öðrum þm., að verðlagsn. hefði ákveðið lægra verð á landbúnaðarafurðum en rétt hefði verið, og þessa umkvörtun heyrir maður daglega hér á þingi. En það merkilegasta er, að ég hef varla heyrt einn einasta bónda á öllu landinu, sem ekki annaðhvort unir mjög vel eða sæmilega verðlagsákvörðuninni, sem gerð var á s. l. hausti. Ég efast ekki um það, að hv, þm. geti vitnað í ræðumenn á fundum úti um landið, ræðumenn, sem tala í sama tilgangi og með sama hugarfari og þeir, sem hafa talað hér í hv. deild. En þegar bændur segja hug sinn allan, held ég, að það séu ekki skiptar skoðanir um það hjá þeim, að verðlagningin hafi tekizt vel. Hv. þm. segir, að bændur hafi verið sviknir um það verð, sem þeir áttu að fá 1944. Ég ætla, að það fari ekki vel í hans munni að tala um svik við bændur í því efni, því að ég ætla, að aðrir hafi ekki verið öllu framar í flokki um þá verðlagsákvörðun en hann. Ég er ekki að segja hv. þm. það til lasts, því að ég álít, að sú verðlagsákvörðun, sem gerð var 1944, hafi verið skynsamleg.