17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Eysteinn Jónsson:

Ég verð að lýsa undrun minni á þeim vinnubrögðum, sem hér eru höfð, og sé satt að segja ekki, hvar þetta ætlar að lenda. Þetta mál er eitt af brbl. hæstv. ríkisstj. síðastliðið haust. Nú eru komin sumarmál, og menn sitja hér heilar nætur yfir þessum málum. En það, sem kom mér einkum til að standa upp, voru ummæli, sem féllu hjá hæstv. fjmrh. hér í kvöld.. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekkert athugavert, þótt álagning á kjöt í smásölu hefði hækkað um 1%. Ég verð að segja, að ég tel varla sæmilegt að hafa slík ummæli, einkum þegar þess er gætt, að nú var lagt á miklu hærri upphæð en áður. Mun láta nærri, að það séu um 58 aurar á kg, sem hæstv. ráðh. gat ráðið hvert rynni, og hann kaus heldur að láta það renna til milliliða en til bænda. Hann sagði þetta gert af því, að sölubúðir í Reykjavík hefðu hótað sölustöðvun og kvað Sláturfélag Suðurlands hafa verið þar í broddi fylkingar. Ég hefði nú haft gaman af að spyrja hv. þm. Borgf. um þetta, en forseti hefur nú þjarmað svo að þm., að jafnvel þm. Borgf. er farinn af fundi; má telja furðulegt .að bjóða þm. upp á að sitja hér. á fundi kl. 3–4 að morgni. Ég veit, að þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðh. eins og hann túlkaði það. Hins vegar mun vera sá flugufótur fyrir þessu, að Sláturfélagið er í félagi kjötkaupmanna.

Þá sagði hæstv. ráðh., að svo oft mætti endurtaka lygi, að menn tryðu henni sjálfir. En hvað sem hæstv. ráðh. segir um þetta, þá vita það allir, að búnaðarráð var sett til þess, að hæstv. landbrh. gæti ráðið verðinu og sett það lægra en 6 manna samningurinn stóð til. Hjá þessu kemst hæstv. ráðh. aldrei.

Það er fáránlegt hneyksli, .að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér að halda því fram, að það séu hagsmunir bænda, sem bornir eru fyrir brjósti. Ef svo hefði verið, hefði bændasamtökunum verið falið verðlagningarvaldið í hendur. Hitt kann að vera, að hæstv. ráðh. hafi ekki þurft að segja þessum mönnum í búnaðarráði fyrir verkum. Þeir hafa skilið hlutverk sitt.

Þá beit hæstv. ráðh. höfuðið af skömminni, þegar hann sagðist ekki hafa hitt einn einasta bónda, sem væri óánægður með skipun búnaðarráðs. Hefur hæstv. ráðh. ekki talað við neinn bónda nema hv. þm. A.-Húnv.? Ef svo er, þá getur hann verið viss um, að sá hv. þm, talar ekki fyrir munn bændastéttarinnar. Það er vart haldinn svo bændafundur, að þessum lögum sé ekki mótmælt, og mér þykir satt að segja ótrúlegt, að hæstv. ráðh. hafi ekki orðið var við þetta.

Ég vildi einungis taka þetta fram, vegna ummæla hæstv. ráðherra.