17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Sveinbjörn Högnason:

Vegna ummæla hæstv. landbrh. um, að ég væri ekki læs, að ég læsi frv. ekki rétt, þegar ég legði þann skilning í það, að þeir menn, sem vinna um stundarsakir að landbúnaðarstörfum, eigi ekki rétt á uppbótum, vil ég upplýsa hæstv. ráðh. um það, að hann lætur prenta eftir sér ólæsileg orð, ef þetta er ekki réttur skilningur. Hér stendur í 3. gr. frv.: „Þeir, sem taka laun sín að nokkru“ o. s. frv. Ég viðurkenni, að ég er ekki læs, ef þetta stendur hér ekki. Annaðhvort fer hæstv. ráðh. með vísvitandi rangt mál eða þá hann veit ekki, hvað hann segir. Ég skal játa, að erfitt getur verið að komast fyrir, hverjir fá kaup í fæði, en þetta skapar fjölda af skólafólki hér í bænum mikil óþægindi, en það fólk má sízt vera án þess, er því ber.

Ég hlýt að ákæra framkvæmd þessara l. fyrir hönd minna umbjóðenda, og satt að segja furða ég mig ekki á, að hæstv. stjórnarlið vilji hafa næturverk á þessu, en þá ættu þessir herrar ekki að hlífa sér við því að vaka með hjúunum. Það er bæði, að þessi ráðstöfun bitnar á fjölda fólks, sem ekki eru framleiðendur, og svo fær sá rökstuðningur alls ekki staðizt, að bændur eigi ekki einnig að fá uppbætur. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta yrði svo að vera, vegna þess að ekki væri hægt að hafa neitt eftirlit með kjötneyzlu bænda. En ég veit ekki til, að neitt eftirlit sé haft með kjötneyzlu neins staðar, enda ákveðið að miða við 40 kg á mann. Þetta er því tóm vitleysa hjá hæstv. ráðh.

Ég skal þá loks koma að því, sem hæstv. ráðh. kallaði vafasama siðfræði. Hæstv. ráðh. ber hér ekki saman við Pál postula, og þótt Pétur hafi nú líka postuli heitið, þá hygg ég, að það sé álit flestra, að mönnum beri að halda þann trúnað, sem maður hefur tekið við. Og ef það rekst á, sem manni finnst rétt, annars vegar, og vilji þess, sem hefur trúað manni fyrir einhverju verki, hins vegar, þá er ekki um annað að velja en annaðhvort að breyta á móti betri vitund, þ. e. því, sem manni finnst rétt, eða segja af sér því trúnaðarstarfi, sem manni hefur verið falið, ef maður vill koma hreint fram. Ég held, að þetta sé alveg skýlaust, eftir því sem vestræn menning hefur viðurkennt sem siðferðiskenningu í þessum efnum. En það er óneitanlega orðið mikið af þeirri skoðun í okkar þjóðfélagi, að ef einhverjum trúnaðarmönnum eru falin einhver störf, þá megi þeir eins hugsa um sína hagsmuni eins og það, sem þeim er trúað fyrir. Því miður hefur mikið af þessu komið á daginn hjá okkur í seinni tíð. Og það er ekki að undra, þegar maður heyrir hæstv. fjmrh., viðskmrh. og landbrh. segja, að það sé úrelt kenning orðin, þessi gamla kenning vestrænnar menningar um þessi efni, sem ég tók fram, og að eiginhagsmunir eigi að sitja fyrir í þessum efnum, hvað sem yfirboðarar segja. Mig undrar að heyra þetta frá þessum manni hér hjá okkur, og sýnir það, hvert los er komið á hér hjá okkur í þessum efnum, fjárhags- og viðskiptaefnum, og skilning manna á trúnaðarstörfum í okkar þjóðfélagi. Enda hefur það skýlaust komið fram, að fleiri líta á þessi mál eins og ég, því að það voru vissir menn, sem neituðu alveg að taka við þessu trúnaðarstarfi. En þeir, sem tóku við því, töldu sér skylt að fara eftir því, sem hæstv. ríkisstj. var hagkvæmast í þessum efnum. Það er nákvæmlega eins og hv. 2. þm. S.-M. sagði um þetta efni áðan, að þessi tilnefning er gerð af hæstv. landbrh. þannig, að hann útnefnir sína trúnaðarmenn til þess að gera þetta á þann hátt; sem niðurstaðan varð, af því að það var vitanlegt, að bændastéttin mundi aldrei ganga inn á verðlagninguna, sem var sett nú síðast á landbúnaðarafurðum. Það var viðurkennt af okkur hér, sem gengum inn á 9,4% eftirgjöfina, að það væri aðeins til eins árs. Og þess vegna er það líka skylda þeirra manna, sem samþ. 9,4% eftirgjöfina í fyrra, til þess að reyna að fá eitthvert bráðabirgðasamkomulag um að reyna að knýja niður dýrtíðina, — það er skylda þeirra manna, sem samþ. þetta fyrir bænda hönd þá, að sjá um, að þeirra hlutur verði réttur, því að annars svíkjast þeir líka um sín trúnaðarstörf, sem þeim hafa verið falin af bændum.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þetta miklu lengra. Aðeins þótti mér broslegt, að hæstv. landbrh. var mjög sakleysislegur og sagði: Það var öðru nær en að ég hefði útnefnt nefndina til þess að ákveða verðlagningu á landbúnaðarafurðum, það gerði búnaðarráð. Og það var svo að skilja, að það væri sama og hann segði: Ég er alls ekki útnefndur af mínum kjósendum, það er bara þetta þingmannaráð Sjálfstfl., sem ég ber ábyrgð gagnvart. En ég hélt, að hæstv. ráðh. bæri ábyrgð gagnvart þjóð sinni og þeim kjósendum, sem hann er kosinn af. Og það er vitanlegur hlutur, að inn í þetta búnaðarráð að miklum meiri hluta voru ekki tilnefndir aðrir menn en þeir, sem hæstv. landbrh. vissi, að mundu verða þægur ljár í þúfu um að koma fram vilja ríkisstj. í verðlagsmálum. Það var ekki gert vegna bænda og hagsmuna bænda að beita þessu einræðisvaldi, sem hæstv. landbrh. gerði, heldur af því að ríkisstj. vildi sitja á rétti bænda til þess að geta hangið við völd á því nokkrum mánuðum lengur. Það er vitanlegt, að ef bændur hefðu ekki gefið eftir þessi 9,4% í fyrra, þá hefði þessi ríkisstj., sem nú situr, ekki getað setzt í stólana. Og hún vissi líka, að hún hafði stjórnað þannig, að ef hún launaði ekki bændum þannig að níðast á þeim í verðlagsmálum, þá gat hún heldur ekki haldið áfram að sitja að völdum, án þess að dýrtíðin í landinu yxi stórum og atvinnuvegirnir stöðvuðust. Og þá þótti hæstv. ríkisstj. rétt að launa þann drengskap, sem bændur einir höfðu sýnt af stéttum í þessu þjóðfélagi haustið 1944, með því að níðast nú á þeim einum ári seinna með því að lækka verðlag hjá þeim einum fyrir vinnu þeirra frá því, sem þeir höfðu gengið inn á 1944, eða menn fyrir þeirra hönd. Því að fyrir hönd bænda var ekki samið um, að þessi 9,4% hækkun skyldi niður falla undir öllum kringumstæðum, heldur með því móti, að útflutningsuppbætur kæmu í staðinn og að hvers konar hækkun á framleiðslukostnaði landbúnaðarafurða yrði greidd. Og nú hefur þessi áníðsla á bændum gengið lengra en að taka þessi 9,4% af verði landbúnaðarafurða bænda, og af ríkisstjórninni algerlega í heimildarleysi, af verði landbúnaðarafurða, til þess að bæta upp útflutningsafurðirnar. Og hæstv. landbrh. situr í sínum ráðherrastóli fyrir drengskap bænda á sínum tíma, sem vildu reyna að hjálpa til við það, að við gætum komizt inn á rétta braut aftur í atvinnumálum okkar. Þetta vill hann sjá við bændur með því að níðast á þeim áfram og setja þá í hlekki um sín mál, jafnhliða því, að allar aðrar stéttir í þjóðfélaginu fá stórfelldar hækkanir fram fyrir sig. Því að það er ekki aðeins Dagsbrún, sem búin er að hækka grunnkaup að nýju, heldur hafa öll félög hér í bæ, sem hafa samningagerðir miðaðar við 1. maí, sagt upp samningum og farið fram á stórhækkanir. T. d. þeir, sem starfa við mjólkursölu hjá framleiðslufyrirtækjum bænda, fara fram á um 40% hækkanir. Þetta á víst að ganga . fyrir sig þegjandi. En við bændur á að segja: Þið skuluð kaupa ykkar vörur dýrara verði en aðrir, en það á að lækka verð á framleiðsluvörum ykkar — og allt til þess að þessi blessuð stjórnarfleyta geti flotið dálítið lengur, til þess að hún geti komið þjóðmálunum í öngþveiti. Ég held, að aldrei hafi verið meir misnotaður trúnaður manna en trúnaður bænda í þessu efni af hæstv. ríkisstjórn. Og ég skil ekki í því, að hv. þm. séu svo sljóir, að þeir sjái ekki, að ef á að beita einhverja stétt slíkum þrælatökum, ekki aðeins í verðlagningu afurða hennar til sölu, heldur líka í verðlagi á því, sem sú stétt á að kaupa, að það skuli vera við hærra verði en til annarra stétta, þá hlýtur að koma að því fyrr eða síðar, að upp úr logar í þjóðfélaginu, ef slíkum tökum er beitt. Það má brýna deigt járn svo, að það bíti, og þó að bændastéttin hafi verið friðsamasta stétt þessa lands og sú stétt, sem haldið hefur jafnvæginu gegnum aldirnar, þá má herða svo á þrælatökunum gagnvart þeirri stétt, að bændum þyki ekki sætt undir lengur, ef þeir eigi að halda uppi heiðri stéttarinnar og þeir eiga að geta haldizt við í sveitunum og ræktað þær fyrir sig og afkomendur sína. Það er þess vegna sjáanlegt, að það eru byltingarmenn, sem hér ráða mestu. Því að þetta mun runnið frá þeim flokki í ríkisstj., sem er yfirlýstur sem byltingarflokkur. Þeir vilja gera óánægjuna sem mesta, til þess að geta síðan hrært upp gruggið í þjóðlífinu, sem kann að vera til einnig í sveitinni. En ég hygg, að það megi treysta því, að þjóðin sjái muninn á þessum byltingarsinnuðu mönnum annars vegar og svo hinum, sem bezt hafa rutt brautina í landsmálum okkar og þjóðfélagsmálum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Ég hef lagt fram skrifl. brtt. við frv., þar sem afmáð er þetta misrétti úr frv. Og ég er sannfærður um, að þeir hv. þm., sem ríkisstj. styðja, mega telja sig mjög heppna með því að losna við hneyksli þessa frv. á sæmilegan hátt, með því að afnema það úr frv. samkv. minni brtt., þannig að þeir, sem úti í dreifbýlinu búa, megi búa nokkurn veginn við sama rétt hvað sem annars má um frv. segja — eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins.