17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Hæstv. landbrh. talaði hér í dag og svaraði hv. 2. þm. N.-M., að það lægju enn ekki fyrir skýrslur um það, hve margir hefðu fengið niðurgreiðslur samkv. þessum l., og ekki heldur, hve háum fjárhæðum þær næmu í það heila. Eftir þessum upplýsingum hæstv. ráðh. lítur út fyrir, að þrátt fyrir þau mörgu orð, sem búið er að skrifa vegna þessara brbl. á ákaflega mörg eyðublöð, og þrátt fyrir alla þá miklu vinnu, sem búið er að leggja í framkvæmd l., þá sé enn eftir að gera ýmsar skýrslur varðandi málið. Enda kom mér þetta ekki á óvart, og er vandi fyrir að sjá, hvenær allri þeirri skýrslugerð verður lokið og hversu margir hafa þá komið þar til skjala og fengið ríflega eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu borgaða fyrir þessa skýrslugerð ríkisstjórnarinnar. Þar eru áreiðanlega ekki öll kurl komin til grafar og verða ekki um sinn. — Hæstv. ráðh. sagði í dag í þessari sömu ræðu um verðlagsn. landbúnaðarafurða, að hún hefði aldrei verið betur skipuð en nú. Mér finnst þetta ákaflega grálega mælt og kaldranalega í garð hv. 2. þm. Rang., sem einu sinni var form. kjötverðlagsn., einmitt sá maður, sem stendur nú í því að mæla með þessu ljóta frv. ríkisstj., þar sem svo freklegum rangindum er beitt við fjölmarga menn í þjóðfélaginu, og þá ekki síður við ýmsa þá, sem honum hafa veitt brautargengi, heldur en aðra. Ég held, að þessi góði og trúi þjónn hæstv. landbrh, hafi átt annað skilið af honum en þessi ummæli, þessar köldu kveðjur.

Þá var það um atvinnurekendurna. Hæstv. landbrh. segir, að flokkunin sé eftir því, hvort þeir græði á því eða ekki, að haldið sé niðri vísitölunni. Þetta eru alveg ný vísindi, sem ég held, að fæstir geti viðurkennt sem góða og gilda vöru. En hæstv. ráðh. sleppti því alveg að reyna að verja það, á hvern hátt hann gerir upp á milli atvinnurekenda í þessum lögum. Og það var reyndar von, að hann sleppti því að skýra þingheimi frá því, hvernig á því standi, að maður, sem hefur sinn atvinnurekstur í hlutafélagsformi, jafnvel þó að hann sé aðaleigandi hlutafélagsins sjálfur og kona hans og börn með honum og e. t. v. engir aðrir þar við riðnir, hvernig stendur á því, að sá atvinnurekandi kemst á kjötskýrslu hjá hæstv. landbrh., en annar atvinnurekandi við hliðina á honum, sem ekki enn hefur breytt sínum rekstri í hlutafélagsform, heldur hefur atvinnureksturinn á sínu nafni, er útilokaður samkv. l. frá því að komast á kjötskýrslu. Það var alveg rétt af hæstv. landbrh. að fara heim að hátta, í staðinn fyrir að skýra þetta fyrir mönnum. Því að ég held, að ef það hefðu átt að vera fullnægjandi skýringar, þá hefðu þær tekið svo langan tíma, að það hefði verið ómögulegt fyrir hann að ljúka þeim áður en hann fór að sofa.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði hér nokkur orð áðan. Hann er nú meðnefndarmaður minn í fjhn., sem hefur verið lítt starfandi nú um skeið, bæði að þessu máli og öðrum, sem hún hefur átt að athuga. En hv. 3. þm. Reykv. sagði út af því, sem ég hélt fram í mínu nál., og út af orðum mínum hér í hv. d., að sú hækkun, sem ríkisstj. — því að það er vitanlega ríkisstj., en ekki þessi verðlagsn. landbúnaðarafurða, nema að litlu leyti — hefði látið kjötverzlanirnar fá, mundi hafa farið að miklu leyti til bænda. Þetta er vitanlega hin mesta villa. Það er ekki rétt hjá þessum hv. þm., sem ég veit, að mælir þetta ekki gegn betri vitund, heldur af því, að hann hefur ekki aflað sér greinilegra upplýsinga um málið. Það er ekki rétt, að samvinnufélög bænda hafi á hendi smásöluna á kjöti að meiri hluta. Og það nægir í þessu sambandi að vitna til þess, að það hefur áreiðanlega enginn bóndi á landinu óskað eftir því, að þessar 3 millj. kr., eða hvað sem það hefur verið, færu til kjötverzlananna. Þess hefur áreiðanlega enginn bóndi óskað — já, ég skal ekki segja,, hvort slíkir bændur finnast innan búnaðarráðs — en áreiðanlega hafa ekki utan þess fundizt bændur, sem óskað hafa sérstaklega eftir því, að álagning verzlananna á kjöti hækkaði um 77% á sama tíma og verðið til bændanna er sett miklu lægra en þeim ber að fá fyrir vöruna. Mér dettur nú í hug, að ég hafi e. t. v. ofmælt. Ég sé nú hér einn bónda, hv. þm. A.-Húnv. Ég veit ekki um það, hvernig hann kann að líta á þetta mál.