08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

7. mál, skipakaup ríkisins

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Út af fyrirspurn hv. þm. Borgf. vil ég taka það fram, að það er skoðun ríkisstj. að láta þetta ganga jafnt yfir alla, á meðan fé endist, hvort sem ríkisstj. eða einstaklingar standa að byggingunum, ef skipin eru forsvaranleg og sterk. Ég býst við, að fyrirspurn hv. þm. stafi af því, að bæjarstj. á Akranesi vinnur að því að koma á samningum um smíði á 8 bátum í Danmörku, 60 tonna bátum, og fór fram á, að ríkisstj. gæfi sér tryggingu fyrir styrktarláni, þegar bátarnir væru fullsmíðaðir. Ríkisstj. treystir sér ekki til að gera þetta, því að hún er þeirrar skoðunar, að erfitt mundi að binda sig fyrirfram í þessu efni, því að svo koma aðrir með sína báta tilbúna á stundinni. Það er ekki hyggilegt að binda sig fyrirfram, og hefur verið fylgt þeirri reglu gagnvart öllum að gefa engin loforð fyrirfram. En um þetta hefur ríkisstj. ekki hugsað sér að láta neina sérstaka menn ganga fyrir með þessi lán, heldur að þau gangi jafnt yfir alla.