08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

7. mál, skipakaup ríkisins

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. S.-M. tók sérstaklega fram, að hann hefði álitið réttara að leita eftir samþ. hæstv. Alþ. um lántöku til skipakaupa áður en síðasta þ. lauk en að hæstv. ríkisstj. gæfi út brbl. milli þinga. Ég skal benda þm. á það að þegar síðasta þ. lauk, lá að vísu fyrir vilji hæstv. ríkisstj. um það, hvað hún vildi gera, og það má segja, að einmitt þetta hafi verið þungamiðjan í því, að bundið var fastmælum að hrinda fram bátabyggingum. Þetta sérstaka mál, bátabyggingar innanlands, var þá ekki komið á það stig, að unnt væri að ákveða, hve miklu þyrfti til að kosta. Og hæstv. ríkisstj. tók ákvarðanir um skipabyggingar í enn ríkari mæli, en það var gersamlega ómögulegt, eins og málið lá fyrir þegar síðasta þingi lauk, að gera sér grein fyrir, hvað gert mundi verða í þeim efnum eða hvað hægt væri að gera. Nú er vitaskuld ekki nema gott um það að segja, að í hvert skipti sem ríkisstj. gerir slíkar ráðstafanir, tryggi hún sig gagnvart hinum aðilanum, sem á að nota skipin. Og þó að hinum gætna fjármálamanni þyki miður stefnt, þá er enn þá hægt að sýna fram á það, að bátarnir eru byggðir eftir vísitölu. Verður talsvert óvisst um verðið, þar til smíði er lokið. Og þetta, að byggja eftir vísitölu, er ekki nýtt fyrirbæri, því að þeir, sem eiga skip í smíðum erlendis, hafa orðið að sætta sig við það, sem kallað er „slight scale“. Þetta torveldar mönnum, sem óska að eiga mótorbáta, að gera fasta samninga, því að það er ekki hægt að slá neinu föstu um kostnaðarverð þeirra, fyrr en lokið er smíði þeirra. Um sama leyti eru um 11 bátar í smíðum í skipasmíðastöðvum hér á landi, sem einstaklingar standa að, og verðið á þeim er á engan hátt hagstæðara en það, sem hæstv. ríkisstj, hefur samið um. (EystJ: Verðið er hátt). Verðið er hátt, segir hv. þm:, og er það satt.

Um Svíþjóðarbátana er það að segja, að það hefur verið fyrst og fremst unnið að því að athuga, hvað hægt væri að gera utan lands í þessum efnum. Það lítur ekki út fyrir, að allar vonir uppfyllist með þá, og menn mega eiga von á vonbrigðum hvað snertir afhendingu þeirra. Og þessi skylda hæstv. ríkisstj. að leita fyrst og fremst út fyrir landið með skipabyggingar er kannske réttlætanleg, en ég er ekki alveg viss um og vil ekki taka undir það, að hæstv. ríkisstj. hafi fyrst og fremst átt að skyggnast um eftir því, hvað hægt hefði verið að gera með erlendum höndum, áður en litið væri til hinna myndarlegu skipasmíðastöðva, sem hér hafa komið upp á undanförnum árum. Þá benti hv. þm. á eina reglu, sem hæstv. ríkisstj. hefði átt að fylgja, að útvega báta og skip í samráði við einstaklingana, sem kaupa þau, og við þeirra hæfi. Hver á að dæma um það, hvaða bátur er við hæfi manns, sem óskar eftir bát? Gerum ráð fyrir, að það sé maðurinn sjálfur. Ég bendi á þetta vegna þess, að í málgagni hv. 2. þm. S.-M. var ráðizt heiftarlega á Nýbyggingarráð fyrir það, að það hafði einmitt farið út á þá braut, sem hv. 2. þm. S: M. vildi og álítur, að hæstv. ríkisstj. ætti að fara. Það hafði verið sótt eftir því til Nýbyggingarráðs fyrir síldveiðitímann að flytja inn sænska báta. Og þessir menn komu með sínar óskir og vildu endilega kaupa notaða báta frá Svíþjóð. Munu sumir bátanna hafa verið gamlir eða frá 1 árs, flestir 2–3 eða 4 ára, einn var nokkru eldri. Þeir sýndu fram á það og þurftu ekki að færa sterk rök fyrir því, að það var nauðsynlegt að fá þá fyrir vertíðina. Þeir vissu ekki, að vertíðin mundi bregðast. Og það, sem gert var, var að framkvæma þetta í samráði við einstaklingana.

En hrópin og naggið í málgagni hv. 2. þm. S.-M. hafði um engan hlut verið argvítugra en út af þessu, svo að þessi hv. þm. gerði rétt í að bera sig saman við þann mann, sem skrifað hefur árásargreinarnar, og tala við hann um dóm kaupendanna og að bátarnir séu við hæfi þessara einstaklinga. Mér þykir rétt, úr því að hv. 2. þm. S.-M. heldur því fram, að þetta eigi að vera regla, að benda á það, hvað hans málgagn segir um þessa framkvæmd, því að hann segir einmitt, að hann hafi haldið, að hæstv. ríkisstj. mundi útvega skipin í samráði við einstaklingana og við þeirra hæfi. Ég hef lýst því líka, hvaða dóm slíkar ráðstafanir hafa fengið í málgagni þessa hv. þm.

Ég vil út af styrktarlánunum láta þá almennu skoðun í ljós út af fyrirspurn hv. þm. Borgf., að mér hefur skilizt svo, að styrktarlánin hafi verið veitt til að styrkja smíði á fiskiskipum á stríðstímum. Þau hafa verið veitt með sérstöku tilliti til hins óvenjulega dýrleika á þessum skipum, og ég man ekki betur en að sá hv. þm. Reykv., sem hér reifaði málið í öndverðu, hafi talið það vera grundvöll þeirra, að styrkt væru kaup hverra skipa, sem væru óvenjulega dýr, og jafnframt, að ef allir hefðu haldið að sér höndum í dýrtíðinni, þá hefði verið voði fyrir höndum með þennan skipastól, sem eru vélbátarnir. Styrktarlánin hafa hvílt á þeim grundvelli að styrkja vegna þess, hve skip eru dýr. Ég vil segja, að þessi röksemd eigi ekki við, þegar um er að ræða skip, sem byggð eru utan- eða innanlands á allt öðru verði og eru miklu ódýrari, heldur þau, sem eru í smíðum í Svíþjóð og innanlands á vegum einstaklinga, því að 11 einstaklingar eiga í smíðum skip innanlands af þessu tagi. — Ég vildi, að þessi skoðun kæmi fram, að þau miðast við það, hve dýr þessi skip reynast. Stutt er síðan vitað var, að Danmörk gæti leyst af hendi skipasmíðar fyrir Íslendinga. Og þegar gerð var ákvörðun um að láta smíða skip innanlands, þá hafði Danmörk verið í hershöndum, og vitanlega var þá ekki hægt að sjá fyrir, hvenær hún gæti smíðað skip fyrir íslendinga. Það er ekki nema gott um það að segja, að hún getur leyst af hendi skipasmíðar. Og þegar séð er, að þeir menn, sem farið hafa fram á að fá báta smíðaða þar og ekki hefur verið synjað, fá þá miklu ódýrari, þá er það alls ekki sambærilegt, þegar metin er lánsþörfin, við þá báta, sem smíðaðir kunna að verða í Danmörku á miklu lægra verði.