08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

7. mál, skipakaup ríkisins

Jóhann Jósefsson:

Það er fjarri því, að ég hafi snúið út úr orðum hv. 2. þm. S.-M., heldur aðeins benti ég á ósamræmi í þeim skoðunum, sem hv. þm. heldur fram hér í d. og vildi láta vera lífsreglu ríkisstj., og þeim skoðunum, sem blað hans heldur fram. Það getur verið, að þessum hv. þm. þyki það henta sér bezt að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri.

Þá verð ég að víkja að því, sem hann sagði, að sér hefði skilizt, að Nýbyggingarráð hefði vanrækt, þegar veitt var lán fyrir sænska báta, að setja fullnægjandi ákvæði gagnvart styrkleikanum. Ég býst ekki við, að hv. þm. líti þannig á, að Nýbyggingarráð hafi sjálft getað séð, hvað þurfti að gera við báta, sem liggja úti í Svíþjóð, en hitt er víst, að þessum hv. þm. hefur skilizt þetta. Ef hv. þm. býr þetta ekki til sjálfur, þá hefur hann látið aðra búa það til fyrir sig. En satt að segja hélt ég, að hann og blað hans ættu svo innangengt í viðskiptaráð, að þeir gætu kynnt sér þetta, þar sem hvert bréf, sem Nýbyggingarráð skrifar, er sent til viðskiptaráðs, sem gefur þessi leyfi formlega út, því að það eru vélrituð á hvert einasta leyfi þau skilyrði, sem íslenzk 1. setja um styrkleika skipa, og ætla ég, að það verði varla misskilið, hvað Nýbyggingarráð á við í þessu efni, hvað sem þessum hv. þm. hefur skilizt í þeim efnum. Það er hálfleiðinlegt fyrir jafngreindan mann og hv. 2. þm. S.-M. að tala svona, þar sem það er algerlega í mótsögn við staðreyndirnar, ef hann hefur hirt um að kynna sér þær.

Það er svo fjarri því, að ásökun hv. þm. um það, að ég hafi verið að gera gys að honum, sé rétt. Hann er, held ég, að gera gys að sér sjálfur með því, sem hann segir. Að hann, sem hefur staðið í broddi þeirrar fylkingar, sem virtist hafa því hlutverki að gegna að kippa öryggi undan hvers konar atvinnu, sem hvers konar áhætta fylgdi, skuli tala um það nú, að fyrsta skilyrðið sé fjárhagslegt öryggi af hálfu stjórnarvaldanna.