13.12.1945
Neðri deild: 52. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég gerði fyrirspurn hér fyrir nokkru um, hvað liði afgr. frv., sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Skagf. um breyt. á l. um byggingar- og landnámssjóð. Ég óskaði eindregið eftir því, að þetta mál fengi afgreiðslu á þinglegan hátt. Málinu var vísað til landbn. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég sagði þá. En ég beindi í fyrsta lagi máli mínu til n. og til þess hluta hennar, sem væri málinu fylgjandi, en ef hinn hlutinn fengist ekki til þess að koma með nál. og hefði þannig skipazt, að meiri hl. landbn. ætlaði ekki að afgr. málið, þá afgreiddi minni hl. það, svo framarlega sem meiri hl. beitti hann ekki ofbeldi og hindraði minni hl. við að afgr. málið af sinni hálfu. Loks beindi ég orðum mínum til hæstv. forseta, að ef þetta dygði ekki, þá tæki hann til sinna ráða og tæki málið af n. og léti það koma til umr. Hingað til hefur ekkert gerzt, málið er enn óhreyft hjá landbn., og ég tek það svo, að nú eigi maður ekki annars úrkosta en beina orðum sínum til forseta og biðja hann að taka málið af n. og taka það til umr. Ég þarf ekki að fjölyrða um það, hvaða áhrif það hefur varðandi álit Alþ. meðal þjóðarinnar, ef n, ætla sér þá dul að taka sér vald, sem þeim engan veginn er tryggt, og setjast á þýðingarmikil mál og afgreiða þau ekki. Ég vænti, að hæstv. forseti haldi uppi heiðri þingsins, ef n. fæst ekki til að afgreiða málið, þá taki hann það af henni.