08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

7. mál, skipakaup ríkisins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Hv., 2. þm. S.-M. sagði um mína ræðu, að það væri mikið að heyra það af vörum þess manns, sem teldi sig vera aðalmálsvara einkaframtaksins á Íslandi. Ég þarf litlu við að bæta fram yfir það, sem ég sagði áðan, og get endurtekið það, að ef horfið hefði verið að hans ráðum um skipakaup landsmönnum til handa, þá hefði ekkert orðið úr neinu, og get ég tekið undir þau ummæli hv. þm. og einmitt sem umboðsmaður einkaframtaksins. Til þess hafa menn ríkisstj., að geta beitt henni fyrir sig, þegar nauður rekur til. Og eins og þessi mál liggja fyrir, þá veit hver maður, sem á annað borð vill kynna sér þau mál, að ef Íslendingar ættu ekki að sitja sig úr færi til þess að afla slíkra tækja erlendis frá, þá varð ríkisstj. að hafa þar forgöngu, eftir þó að hafa borið sig saman um, hvað heppilegast væri, við þá menn, sem dómbærir eru. Ef ríkisstj. hefði ekki tekið þennan kost, hefði einkaframtakið í landinu verið dauðadæmt með að afla slíkra tækja, en nú er einkaframtakinu meðal allrar þjóðarinnar opin leið til þess að hefjast handa til þess að eignast fullkomin tæki og efla atvinnuvegina, sem að öðrum kosti hefði verið ókleift. En nú fer saman máttur einstaklingsframtaksins, rétt hagnýting auðmagnsins og aukið öryggi fyrir alla menn í landinu til þess að njóta sæmilegra lífskjara. Eins og ég hef tekið fram, er þetta meginstefna núverandi ríkisstj., og það er gegn þeirri stefnu, sem hv. 2. þm. S.-M. hefur valið sér það auma hlutskipti að berjast gegn.

Hv. 2. þm. S.-M. þarf ekki að hugsa sér, að enginn taki mark á því, sem ég segi á meðan ég vinn fyrir þennan málstað, og meðan hann tekur jafnmikið mark á mér og því, sem ég geri, og hann gerir nú, því að hann eyðir allri sinni ævi og kröftum til þess að reyna að koma í veg fyrir það. Ég er ánægður, ef enginn tekur minna mark á mér í landinu en þessi hv. þm. (EystJ: Þá er hann lítilþægur).