08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

7. mál, skipakaup ríkisins

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Ég get verið stuttorður, en það var í sambandi við styrktarlánin, sem ég vildi segja nokkur orð, til þess að forðast misskilning. Þessi lán eru til þess að hvetja menn, sem vilja leggja út, í það á þessum dýru tímum að eignast fiskiskip og gera þau út, sem annars mundu ekki gera það vegna hins háa byggingarkostnaðar. Það væri alls ekki sanngjarnt, að maður, sem kaupir bát á 340 þús. kr. eftir að Danmörk opnaðist, og maður, sem kaupir bát á 500 þús. kr. innanlands, hefðu sama aðgang að styrktarlánum. En meiningin var með styrktarlánunum, að hafizt væri handa strax um smíði fiskibáta, áður en við vissum nokkuð um tilboðin frá Danmörku. Og vitanlega var það tilgangurinn að gera mönnum kleift að reka þessa báta. Hins vegar er nú búið að gera samninga um svo marga báta, að ríkisstj. hefur ekki viljað gefa nein skuldbindandi loforð um styrktarlán meira en búið er að gera. Það liggur í höndum þ., hvort meira verður veitt til þessara lána, en á meðan er ekki hægt að gefa loforð um þessi styrktarlán á þá báta, sem verið er að smíða nú og kann að verða samið um.