15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

7. mál, skipakaup ríkisins

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Það hefur verið skýrt frá því í blöðum fyrir nokkru, að það er búið að semja um smíði á 35 skipum. Ég man ekki svo fyrir víst um allar stöðvar, sem samið hefur verið við um það. En hv. þm. V.-Húnv. getur fengið hér skrá yfir það, ef þess er óskað. Þessi skip eru 35 til 55 tonna skip. Þá hefur verið samið um smíði á 4 skipum 60 til 65 tonna. Það er ekki búið að selja neitt af þessum skipum, og nokkur þeirra verða þó tilbúin fyrir næstu síldarvertíð. Og þau verða seld strax er séð er fyrir endann á því, hvernig hægt er að lofa afhendingu á þeim. Það eru miklir erfiðleikar á því að selja skip áður en hægt er að lofa, hvenær þau verði tilbúin. Það sýndi sig í sambandi við Svíþjóðarbátana, að það eru miklir erfiðleikar, sem því fylgja fyrir menn, ef menn fá skip seinna en um hefur verið samið. Og miðað við þá reynslu í þessu efni í sambandi við Svíþjóðarbátana verða þessir bátar, sem hér er um að ræða í sambandi við þetta mál, ekki seldir fyrr en vitað er, hvenær þeir verða tilbúnir. Það eru komnar vélar í 4 bátana. Hins vegar hafa margir beðið um þessa báta, sem eru allir skráðir, og sumir þeirra hafa tjáð sig reiðubúna til að kaupa bátana strax. Ráðuneytið hefur svarað því, að það mundi ekki slá föstu um kaupin á þessum bátum, fyrr en víst væri, hvenær þeir væru tilbúnir. Ég vænti þess, að bráðlega verði hægt að ganga frá samningum um kaup á þessum bátum, sem búið er að fá vélar í, og hægt er að slá því föstu, að þeir verði tilbúnir fyrir næstu síldarvertíð. En ef óskað er frekari upplýsinga, get ég skýrt frá því á morgun.