16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

7. mál, skipakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að verð báta, er smíðaðir væru hér innanlands, næmi um 10 þús. kr. pr., rúmlest. Hins vegar efaði hann verð það, sem ég nefndi á danska bátnum. Ég las í einu stjórnarblaðinu í morgun, að verð þessa báts væri um 5 þús. kr., og einn af eigendunum sagði í morgun við mig, að verðið mundi nema röskum 5 þús. kr.

Hæstv. ráðh. segir, að ég hafi ályktað að það ætti alls ekki að smíða nein skip hérlendis.

Þetta er ekki rétt. En hvers vegna eru skipasmíðastöðvarnar hér ekki samkeppnisfærar? Það er fyrst og fremst verðbólgu- og dýrtíðarstefnu hæstv. ríkisstj. að kenna, það er því að kenna, að þessari stefnu er haldið uppi.

Hæstv. ráðh. sagði, að verðmunur sænsku og íslenzku bátanna næmi um 25%, og því sýnist mér svo, að hægt væri að gera íslenzka bátaiðnaðinn samkeppnisfæran, ef barizt væri fyrir því að halda dýrtíðinni niðri, en stjórnarliðið vinnur gegn þessu. Hér gildir sama um sjávarútveginn og landbúnaðinn. Við vitum vel, að hæstv. ríkisstj. reynir eftir fremsta megni að halda þessu á floti, og t. d. liggur hér á Alþ. fyrir í dag frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Dýrtíðin í landinu veldur því, að innlend skipasmíði er ekki samkeppnisfær.