16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

7. mál, skipakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Ég mun ekki eyða löngum tíma til að ræða þetta mál, en vil taka einungis eitt dæmi til að sýna, hve óhöndulega og óheppilega hæstv. ríkisstj. hefur tekizt að ráða fram úr þessum málum.

Núverandi ríkisstj. hefur samið við Landssmiðjuna um smíði á 12 bátum. Nú hefur tala þessara báta lækkað niður í 4, en að smíði þessara 4 báta vinna nú 10 útlendingar, og Landssmiðjan hefur orðið að fá gjaldeyrisleyfi fyrir launum þessara manna, um 5 þús. kr. á mánuði. — Hér hefur verið sýnt fram á, hve óheppilegt það væri að byggja hér miklu dýrari skip en hægt er að fá erlendis. En það tekur út yfir að flytja inn vinnukraft til að smíða báta og flytja þannig gjaldeyri úr landi. Vitanlega átti ríkisstj. að afturkalla smíði, ekki 8 báta, heldur 12, í stað þess að flytja inn vinnukraft.

Er ekki tími til kominn að reisa skorður við áframhaldi þessarar stefnu?