26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

7. mál, skipakaup ríkisins

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, var frv. þetta borið fram til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út á s. l. hausti, um breyt. á l. nr. 48 frá 23. febr. 1945, um skipakaup ríkisins.

Fjhn. þessarar d. hefur athugað þetta frv. og aflað sér upplýsinga um það, hve langt komið er með þær framkvæmdir, sem frv. fjallar um, og eru upplýsingar um það birtar í nál. á þskj. 967. Það er, í fáum orðum sagt, þannig, að Nýbyggingarráð hafði aflað tilboða í smíði á 35 vélskipum innanlands, en atvmrh. síðan samið um smíði á samtals 27 vélskipum. — Ástæðan til þess, að þessi l. voru sett, var sú, að það þótti sýnt, að lög þau, sem áður er um getið, að í gildi voru um skipakaup ríkisins, mundu ekki fullnægja þörfinni á smíði skipa innanlands. Þau voru bundin við skipakaup erlendis. Þess vegna þótti líka nauðsynlegt að bæta þessum l. við, er semja átti um kaup á skipum innanlands.

Það kom fram það álit í n., að lækka mætti ábyrgðarheimild þessara l. úr 30 millj. kr. í 25 millj. kr., vegna þess að ekki væri þegar samið um kaup á nema 27 skipum, en upphaflega var gert ráð fyrir smíði 35 skipa. En ég bendi á það hér, að hér er aðeins um heimild að ræða, sem ekki verður notuð til fulls, nema samið verði um smíði á fleiri skipum en þegar er samið um smíði á, og það verður ekki gert nema kaupendur fáist að þeim skipum. Þessi lánsheimild eða þetta lán verður ekki heldur notað nema til þess að auka skipastól landsmanna í samræmi við óskir þeirra, sem þar eiga hlut að máli.