22.07.1946
Sameinað þing: 1. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 3. kjördeildar (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti. — 3. kjördeild hefur haft til meðferðar kjörbréf 17 þm. Til deildarinnar bárust kjörbréf 15 að tölu og yfirlýsingar frá kjörstjórnum 2 þm. Sú fyrri er frá kjörstjórn hv. 2. þm. S.-M. Kjörbréf hans er ekki hér til staðar af ástæðum, sem hann greindi, en fyrir liggur skýrsla kjörstjórnar í héraði um hans atkvæðamagn og löglega kosningu, og tók deildin það gilt. — Enn fremur lá fyrir svipuð yfirlýsing frá kjörstjórninni hér í Reykjavík um kosningu Einars Olgeirssonar, og tók nefndin það einnig gilt. Um hin kjörbréfin, sem nefndin hafði til athugunar, varð enginn ágreiningur, að undanteknu kjörbréfi Bjarna Benediktssonar. Um kjörbréf hans varð nokkur ágreiningur, því að einn þeirra, sem skipuðu landskjörstjórnina, Vilmundur Jónsson, vildi ekki samþ. kosningu Bjarna Benediktssonar. Fyrir nefndinni lá gerðabók landskjörstjórnar, og þykir hlýða, að Alþ. fái að heyra, hvað þar er bókað. Þar stendur:

„Vilm. Jónsson mótmælti því, að Bjarni Benediktsson kæmi til greina sem uppbótarþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og bæri Birni Ólafssyni sæti hans. Samþykkt var af landskjörstjórn með 4:1 atkv. (Vilm. Jónssonar), að Bjarna Benediktssyni bæri sætið. Vilm. Jónsson gerði þá grein fyrir mótatkvæði sínu, að samkv. skýlausu ákvæði 128. gr. kosningalaganna mætti eigi telja frambjóðanda, kosnum hlutbundinni kosningu, fleiri atkv. en bæri sæti því, sem hann hafði skipað á framboðslistanum, reiknað samkv. reglum 115. gr. laganna. Eftir þeim reglum bæri að telja Birni Ólafssyni 2316 atkv., en Bjarna Benediktssyni aðeins 1930. Meiri hlutinn álítur, að skilja beri 128. gr. kosningalaganna þannig, að til greina sem uppbótarþingmaður komi sá frambjóðandi, sem að lokinni kosningu hefur hæsta persónulega atkvæðatölu af þeim frambjóðendum hlutaðeigandi lista, sem ekki ná kosningu, enn fremur að honum beri atkv. í samræmi við það sæti, sem hann er í á lista sínum.“

Atkvæðagreiðsla fór fram innan kjördeildarinnar um þetta kjörbréf, og var það samþ. með 8:3 atkv. Aðrir sátu hjá af 14 viðstöddum kjördeildarmönnum. Á þessu stigi málsins skal ekki farið út í þetta. Meiri hluti kjördeildarinnar hefur tekið afstöðu, og Alþ. á að segja til um, hvort till. meiri hl. verður samþ. hér, en ég legg til við forseta, að þessi kjörbréf verði samþ. Telur kjördeildin rétt, að borin verði upp sérstaklega þessi till. um Bjarna Benediktsson.