22.07.1946
Sameinað þing: 1. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

Rannsókn kjörbréfa

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Ég verð að telja dálítið vafasamt, hvernig á að úrskurða um kosningu Bjarna Benediktssonar sem 10. landsk. þm., og verð ég að segja, að ég er í raun og veru ekki fyllilega sammála hvorki meiri hl. kjördeildarinnar, sem þetta hefur haft til meðferðar og vill samþ. kjörbréfið, né heldur minni hl. landskjörstjórnar, sem mér finnst ekki byggja á réttum forsendum. Ég skal taka fram, að það eru sum atriði í þessu máli, sem ég get ekki fengið upplýsingar um þrátt fyrir það, þó að ég bæði um þær í kjördeildinni, sem hefur haft þessa kosningu til meðferðar, en þar átti ég sæti. Mér sýnist, eins og minni hl. landskjörstjórnar heldur fram, að það sé tvímælalaust ákvæði í 128. gr. kosningalaganna, að ekki megi telja frambjóðanda fleiri atkv. til landskjörs en sæti því ber, sem hann skipar á listanum. Bjarni Benediktsson mun hafa verið í 6. sæti á lista Sjálfstfl. í Reykjavík, og mun því sæti hafa borið 1930 atkv. Nú var hann að vísu færður upp og menn fyrir ofan hann strikaðir út, og þar af leiðandi komst hann miklu nær því að verða þm. Reykv. heldur en röðunin á framboðslistanum sagði til um, en 115. gr. kosningal. setur bara allt aðrar reglur fyrir því, hvernig menn verða landsk., heldur en kjördæmakjörnir, og er þar m.a. allt annar útreikningur viðhafður. Enn hef ég ekki fengið fyllilegar upplýsingar um það, hvað 5. maðurinn á lista Sjálfstfl. í Reykjavík fékk mörg atkv., en eftir því, sem talið var af kunnugum manni á fundi kjördeildar áðan, þá virðast þau hafa verið fleiri en þau, sem 6. sæti listans í Reykjavík bar. Aftur á móti get ég ekki litið svo á, eins og virðist vaka fyrir minni hl. landskjörstj., að efra sæti á listanum beri undir öllum kringumstæðum forgangsrétt fyrir neðra sæti og að 5. maður listans gangi fyrir 6. manni til þess að verða uppbótarþm. Sé það hins vegar rétt, að 5. maður á listanum hafi persónulega fengið fleiri atkv. en 6. sætinu ber samkv. 115. gr., þá finnst mér eftir kosningal., að honum beri þetta landsk. sæti, en ekki hr. Bjarna Benediktssyni, því að mér sýnist það alveg skýlaust, að það skuli vera hámark atkvæðamagns, sem telja megi frambjóðanda, þegar um landskjör er að ræða, hvað sæti hans hefur borið af atkvæðamagni listans, og er það í rauninni ekkert óeðlilegt, þótt aðrar reglur gildi um landskjör en kjördæmakjör.

Hins vegar er það réttur kjósenda að breyta til á listanum, og það getur haft svo og svo mikil áhrif á kosningu, þannig að allt aðrir menn geta orðið þm. kjördæmisins heldur en upphaflega var til ætlazt, en vilji flokksins kemur fram í röðun listans, og þessir landsk. þm. verða þm. til þess að jafna milli flokkanna. Þess vegna er það eðlilegt, að atkvæði til landskjörs eru reiknuð eftir annarri reglu heldur en atkvæði frambjóðanda í kjördæmi, og kveða kosningalögin skýrt á um það.

Ég vil því vekja athygli á framangreindu, þar eð mér finnst þetta svo athyglisvert atriði, því að hér er um meira að ræða en það, hvort Bjarni Benediktsson skuli verða þm. eða sá maður, sem var í 5. sæti á lista Sjálfstfl. Hér getur verið um miklu meira að ræða, sem getur haft áhrif í framtíðinni, hverjir verði landsk. þm. og hverjir ekki. Svo er annað í þessu, sem sýnir, hvað þetta er athyglisvert atriði, sem sé það, hvað lítill hluti kjósenda getur með útstrikunum eiginlega tekið ráðin af meiri hlutanum, t. d. í tvímenningskjördæmi, þá skilst mér, að ekki þyrfti nema 1/5 hluti kjósenda, sem listann kjósa, að strika 1, manninn út, til þess að fella hann. Við skulum hugsa okkur, að slíkt kæmi fyrir, og þá mætti vel hugsa sér það, að þessir 4/5, sem kjósa listann óbreyttan, séu algerlega ánægðir með efsta manninn á listanum og vilji fá hann fyrir þm., en þá er það 1/5 kjósendanna, sem ræður því, hver verður hm. fyrir hlutaðeigandi flokk. Allt þetta finnst mér þurfa nokkurrar athugunar við, og vildi ég óska þess, að þeir menn, sem kosnir verða hér á eftir í kjörbréfan., taki þessi atriði til athugunar og endurskoðunar og að hv. Alþ. kveði á sínum tíma upp einhvern rökstuddan úrskurð um það, hvernig með þetta skuli farið í svona tilfellum, því að það er einkennilegt, að í gerðabók landskjörstj. er enginn rökstuðningur hjá hv. meiri hl. kjörstj., heldur aðeins bókað, að 4 úr stj. hafi samþ., að BBen verði landsk. þm. Hins vegar er viðleitni til rökstuðnings hjá hv. minni hl. hess vegna er það, að ég vil vek.ja athygli á þessu, og ég fyrir mitt leyti treysti mér ekki til, ef ekki koma fram frekari upplýsingar, að greiða atkv. um þetta mal. Skal ég þó taka það fram, að það er eingöngu vegna þessa lagaákvæðis og þess fordæmis, sem hér verður gefið, en ekki á nokkurn hátt af persónulegum ástæðum, því að vitanlega stendur mér á sama um það, hvort Bjarni Benediktsson situr hér á þingi eða Björn Ólafsson, sem mér skilst kæmi þá ella til greina.