26.09.1946
Efri deild: 3. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

3. mál, sveitarstjórnarkosningar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Mér þykir vænt um, að n. hefur tekið til athugunar, að svo getur oft staðið á og jafnvel til frambúðar, að saman falli kjördagur til Alþingis og sveitarstjórnarkosninga í sveitum. Svo var 1942, og þá voru gefin út brbl., og svo var í ár, og þá voru gefin út brbl. til að fresta sveitarstjórnarkosningunum. Kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna eru hvorar tveggja til fjögurra ára, og má því búast við, ef engin óvænt breyt. kemur fyrir, að eins standi á 1950 o.s.frv.

Nú gat hv. frsm. um það, að honum fyndist, að þetta ætti að laga, en n. hefur ekki séð ástæðu til að gera það að þessu sinni. Mér þykir undarlegt, ef ekki er hægt að ganga frá þessu atriði á þessu þingi, þar sem málið er til meðferðar hvort sem er. Þetta er einfalt atriði og lítil fyrirhöfn að setja almenn ákvæði um annan kjördag fyrir sveitarstjórnarkosningar en alþingiskosningar. Ég vil því óska þess, að n. taki þetta atriði til athugunar fyrir 3. umr. málsins.