03.10.1946
Neðri deild: 10. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

3. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. — Allshn. hefur athugað þetta frv. og orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt. Hér er um að ræða staðfestingu á brbl., sem eru þess eðlis, að verkanir þeirra eru þegar komnar fram.

Þeirri hugsun var hreyft við meðferð þessa máls, að æskilegt væri að gera hér varanlega breyt. á l. um sveitarstjórnarkosningar varðandi kjördag í kauptúnum og í sveitum, sem mundi girða fyrir nauðsyn slíkra brbl. í framtíðinni með því að þá mundi séð fyrir því, að þær mundu þá ekki rekast á við kjördag til alþingiskosninga. En sú breyt., sem hér um ræðir, má segja, að eigi rætur sínar að rekja til þessara tveggja kjördaga, kjördagsins til alþingiskosninga annars vegar en kjördags til sveitarstjórnarkosninga hins vegar. En þar gæti einnig komið til greina að breyta kjördegi til alþingiskosninga til þess að ná þessum sama tilgangi, á þessu stigi málsins. En eins og nál. ber með sér, sáu nm. ekki ástæðu til að víkja nú frekar að þessu atriði, að stofna til breyt. í þessu skyni, og hafa því lagt til, að frv. verði samþykkt óbreytt.