22.07.1946
Sameinað þing: 1. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

Rannsókn kjörbréfa

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Út af ágreiningi þeim, sem komið hefur fram um skilning á 128. gr. kosningal., þykir mér rétt að segja örfá orð. Það ákvæði, sem hér er deilt um, er það, að frambjóðanda, kosnum hlutbundinni kosningu, skuli á landslista eigi talin fleiri atkvæmi en sætinu ber, samkv. 115. gr., er hann skipaði á framboðslistanum. Til þess að átta sig á þessu ákvæði er nauðsynlegt að athuga, hvernig þetta er til komið. Það var ekki í kosningal. fyrr en 1942, en þá var gerð sú stjórnarskrárbreyting að taka uppa hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum, og þá var kosningal. breytt eftir því, sem breyta þurfti. Vegna þessarar stjskrbreyt. kom fram sú spurning, sem sérstaklega var bent á af hv. síðasta ræðumanni, 1. þm. Eyf., að vel gæti farið svo, að flokkur í tvímenningskjördæmi, sem hefði minna fylgi heldur en annar, fengi 2 þm. kjörna, þannig að kosinn yrði einn af hvorum lista, en flokkur, sem hefði minna fylgi, gæti fengið annan mann sem uppbótarþm. Það þótti óeðlilegt, að slíkt kæmi fyrir, og þess vegna fluttu þáverandi hv. þingmenn Eyf. till. um að koma í veg fyrir þetta, sem var orðuð á þá leið, að þeir frambjóðendur utan Reykjavíkur, sem kynnu að hafa náð kosningu sem varaþm., skyldu ekki koma til greina nema af landslista. Tilgangurinn var m.ö.o. sá, að þessi breyt. ætti eingöngu við tvímenningskjördæmi, en ekki við Reykjavík. þessi till. var felld, en við 3. umr. málsins í hv. Ed. flutti hv. meiri hl. allshn. aðra till. um málið, sem að efni til var alveg eins og hin fyrri. Kemur þar fram í umr. um málið, bæði í ummælum BBen, sem þá var frsm. meiri hl. n. um þetta mál og flutti till., og sérstaklega skýrt fram í ummælum BSt, að þessi breyt., sem að lokum var gerð, ætti eingöngu að eiga við um tvímenningskjördæmin, en ekki Reykjavík, enda öllum ljóst, að engin ástæða væri að hrófla við þessu varðandi Reykjavík. Ég hef verið að líta yfir umr. í Alþingistíðindum um till. hv. meiri hl. allshn., sem var að efni til samhljóða till. BSt, og þar kemur þetta skýrt fram. Það er líka alveg bert, að tilgangurinn með þessu ákvæði var þessi, að ákveða um uppgerð milli kjördæma um það, hvað hver flokkur fengi til uppbótar, en það var ekki hugsun neins hv. þm., að þetta ákvæði ætti að hafa áhrif á það, hverjir framleiðendur af hverjum lista fengju uppbótarsæti. Að þessu leyti á því alveg sama regla að gilda nú eins og hefur gilt síðan 1934 um ákvörðun uppbótarþingsæta í Reykjavík. Mér virðist sá skilningur hv. meiri hl. landskjörstj. eðlilegur, því að hann er í fullu samræmi við eina meginhugsun kosningal., að kjósendur hafi frelsi til að breyta röðuninni á lista. Ef hins vegar verður fallizt á skilning hv. minni hl. landskjörstj., þá væri tekinn sá réttur af kjósendum að breyta röðun á lista, sérstaklega að því, er tekur tii uppbótarþingsæta. — Ég tel ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta, en vil aðeins leyfa mér að lesa upp — með leyfi hæstv. forseta — álit hv. meiri hl. landskjörstj. um þetta atriði: „Meiri hlutinn álítur, að skilja beri 128. gr. kosningalaganna þannig, að til greina sem uppbótarþingmaður komi sá frambjóðandi, sem að lokinni kosningu hefur hæsta persónulega atkvæðatölu af þeim frambjóðendum hlutaðeigandi lista, sem ekki ná kosningu, enn fremur að honum beri atkvæði í samræmi við það sæti, sem hann er í á lista að lokinni kosningu.“

Samkvæmt þessu er það ljóst, að BBen sé réttkjörinn uppbótarþm. af lista Sjálfstfl. í Rvík. Mér virðist það ljóst, hvernig þetta ákvæði er til komið, og enginn vafi á því, hvernig beri að skilja það.