27.09.1946
Efri deild: 4. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

13. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla útlendinga o.fl.

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. — Eins og kunnugt er, hefur það farið mjög vaxandi þessi 2 síðustu ár, að útlendir menn hafi leitað sér atvinnu hér á landi, og skipta þessir útlendu menn sennilega þúsundum, sem stundað hafa hér atvinnu á þessu ári í lengri eða skemmri tíma. Afleiðingin af þessu aukna innstreymi erlendra manna í landið er sú, að það skiptir miklu máli fyrir ríkissjóð að innheimta skatt af þeim tekjum, sem þeir afla sér hér. Sérstaklega skiptir það miklu máli, að skatturinn sé innheimtur af þeim, áður en þeir fara alfarnir af landinu, því að reynslan hefur sýnt, að það er miklum erfiðleikum bundið að ná skattinum af þessum útlendingum, eftir að þeir eru farnir burt af landinu. — Fjármálaráðuneytið taldi því ástæðu til að setja strangari reglur um skattheimtu þessara manna heldur en þær hingað til hafa verið, og leiddi þetta til þess, að 12. sept. s.l. voru sett brbl. um breyt. og viðauka við 1. nr. 65 11. júní 1938, um skatt- og útsvarsgreiðslu útlendinga. Liggja þessi brbl. nú hér fyrir í frv.formi, og tel ég ekki ástæðu til að ræða hin einstöku atriði frv. Teldi ég rétt, að því yrði vísað til n. og þá væntanlega hv. allshn., sem ég geri að till. minni, þar eð ég held, að sú n. hafi ávallt útsvarsmálin til meðferðar.