22.07.1946
Sameinað þing: 1. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

Rannsókn kjörbréfa

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Hv. þm. Snæf. (GTh) skýrði alveg rétt frá tildrögunum til þess, að þetta lagaákvæði er komið inn í 128. gr. kosningal. Tilefnið var brtt., sem við þm. Eyf. bárum fram um það, að varaþm. utan Reykjavíkur kæmi ekki til greina sem landsk. þm. Mér finnst það hins vegar ekki koma málinu við, hvernig okkar till. var, vegna þess að hún var felld, og hún er þar af leiðandi ekki lög, og lagagr. eins og hún hljóðar nú nær yfir frambjóðendur kosna hlutbundinni kosningu bæði í Reykjavík og tvímenningskjördæmum; orð gr. eru alveg tvímælalaus í því efni. Það er rétt, að ég fór ekki fram á annað 1942 en að þetta gilti um tvímenningskjördæmin, en hv. meiri hl. Alþ. þótti réttara að hafa þetta eins og það er nú orðað í l. Ég sé ekki annað en það sé alveg tiltekið hámark atkvæðamagns, sem má telja frambjóðanda í kjördæmi til uppbótarþingsætis, þar sem um hlutfallskosningu er að ræða, og það er það atkvæðamagn, sem hans sæti á listanum ber, og er þetta skýrt orðað í þessari umræddu gr. Það eina, sem hv. þm. Snæf. tók fram, sem ég gat í raun og veru viðurkennt sem rök, var það, að skilja beri þetta þannig, að átt sé við atkvæðamagn á listanum eftir að kosningu er lokið, m.ö.o. að ef tilfærsla hefur orðið á listanum, t.d. eins og í þessu tilfelli, að 6. maður fer í 5. sæti, þá sé átt við það, að hann sé ekki lengur í 6. sæti, heldur í 5. sæti, en orðalag gr. finnst mér koma í bága við þetta. Það stendur ekkert um það, að þetta skuli vera að kosningu lokinni, heldur að frambjóðanda skuli eigi talin fleiri atkv. á landslista en sæti því ber, er hann skipaði á listanum. Mér finnst þetta vísa til fortíðarinnar, en ekki nútíðar. — Ég ætla mér ekki að gera þetta að neinu þrætumáli, en fannst rétt — einmitt af mér — að vekja athygli á þessu, vegna þess fordæmis, sem þetta kann að skapa, ef það yrði tekið til athugunar, þegar kosningal. verður breytt.