08.10.1946
Efri deild: 12. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

13. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla útlendinga o.fl.

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég óskaði eftir, að þessu máli væri frestað í gær, til þess að ég gæti aflað mér upplýsinga, hvernig þessu væri fyrir komið í nágrannalöndum okkar. Ég sneri mér til skattstjórans, og hefur hann tjáð mér, að engin sérákvæði um þetta efni væru finnanleg hjá Dönum, Svíum, Norðmönnum né Bandaríkjamönnum, en bendir þó á, að hjá Dönum sé það ekki talið til atvinnu, þó að listamenn haf í tekjur af sýningum eða selji listaverk á sýningum, og þær tekjur því ekki tekjuskattsskyldar. Ég mundi telja það fremur óheppilegt, að við færum að setja um þetta sérákvæði, sem ekki þekktust í öðrum löndum, þar sem þetta hefur ekki heldur neina verulega fjárhagslega þýðingu. Slíkt ákvæði mundi sennilega draga úr komu erlendra listamanna hingað, en um það dæmi ég ekki.

En hins vegar tel ég, að til væri önnur leið til þess að ná skatti af þessu fé, en hún er í því fólgin að hækka skemmtanaskattinn hlutfallslega. Hinar háu tekjur listamannanna eru að miklu leyti vegna þess, hversu þeir hafa leyft sér að selja dýrt aðgang. Þess vegna mundi hlutfallshækkun á skemmtanaskatti gera svipað gagn. Þegar málið því horfir svona við, tel ég mig varla geta greitt atkv. á móti till., en tel þó ekki rétt að samþ. hana, og óska ég því helzt, að flm. dragi hana til baka. Það væri hægt að rannsaka þetta nánar fyrir næsta þing, og væri þá hægt að skjóta svona ákvæði inn í l., ef mönnum sýndist svo. Ég geri þetta ekki að neinu kappsmáli, en skoðun mín er sú, að þetta væri skynsamlegasta lausnin á málinu nú.