07.10.1946
Neðri deild: 12. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

2. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Með niðurfellingu sambandslagasáttmálans frá 1944 var sýnilegt, að nokkur atriði þyrfti að koma sér saman um milli Íslands og Danmerkur, og þá sérstaklega þau atriði, er varða hinn gagnkvæma rétt Íslendinga í Danmörku og Dana á Íslandi, sem áður var í gildi eftir 6. gr. sambandslagasáttmálans. Í l. nr. 18 frá 24. marz 1944 var svo ákveðið, að þeir, sem danskan ríkisborgararétt hafa öðlazt samkv. þeim reglum, sem þar um giltu fyrir 9. apríl 1940, og hafa öðlazt hann staðal eftir áðurnefndum reglum, skyldu hér eftir njóta þeirra réttinda, sem eru tilskilin í 6. gr. sambandslagasáttmálans, fyrst um sinn, þar til 6 mál. eftir, að samningar hafa verið gerðir milli Íslands og Danmerkur. Svo var ákveðið, að samningar skyldu hefjast milli landanna fyrr, en ekkert gat orðið úr byrjun á samningaumleitunum fyrr en 6. sept. 1945. Þó voru í Danmörku nokkur viðtöl milli fulltrúa Íslands og fulltrúa Danmerkur um þetta málefni. Ekki var gengið frá samningum, en samkomulag var í stórum dráttum að því er snertir niðurfellingu jafnréttisákvæðis sambandslaganna og hver yrði sá skurðarpunktur, ef svo má að orði kveða, þar sem þetta félli algerlega niður. Og það var sem mánuðum eftir, að samningar byrjuðu 6. marz 1945. Samningar héldu svo áfram hér heima á Íslandi, en síðar en gert hafði verið ráð fyrir. Því að upprunalega var ætlazt til, að samningar færu fram hér á landi á s.l. vori. En þegar af því gat ekki orðið, sumpart vegna annríkis danskra stjórnmálamanna snemma að vorinu og síðan vegna annríkis íslenzkra stjórnmálamanna um síðustu kosningar, þá var sýnt, að tímabil yrði, sem ekki giltu um þetta neinar lagareglur. Þess vegna voru gefin út brbl. þau, sem hér eru til umræðu. Samningar milli Íslands og Danmerkur héldu síðan áfram síðari hluta ágústmánaðar og fyrri hluta september s.l. Og eins og segir í nál., var þó ekki gengið frá öðru atriðinu. En fullt samkomulag varð milli samninganefndanna, á hvern veg skyldi niður fella jafnréttisákvæði 6. gr. sambandslaganna og hvaða reglur skyldu gilda um þá Dani, sem búsettir hafa verið fyrir þennan tíma á Íslandi, og þá að sjálfsögðu um þá Íslendinga, sem búsettir eru á sama tímabili í Danmörku. Um þetta fékkst smám saman fullt samkomulag milli samninganefndanna, sem skipaðar voru af Íslands hálfu og einnig af hálfu Danmerkur af öllum stjórnmálaflokkum. Hafði íslenzka samninganefndin fullt samráð við ríkisstj. um þetta atriði og einnig utanríkismálanefnd. Hins vegar náðist ekki endanlegt samkomulag um þær óskir Dana og Færeyinga, sem fyrir lágu. En Færeyingar höfðu sérstaka fulltrúa frá Dana hálfu um þær óskir, að Færeyingar fengju fyrst um sinn einhvern takmarkaðan rétt hér við land til fiskveiða. Við, sem vorum í samninganefndinni frá Íslands hálfu, veittum því alveg sérstaka athygli, hvað fulltrúar Færeyinga lögðu á það ríka áherzlu að tryggja sér hér við land einhvern tíma aðstöðu til þess að geta stundað veiðiskap með sínum ófullkomnu veiðitækjum, sem eru opnir bátar og þilskip, með eða án gangvéla. Færeyingar kváðust hafa í hyggju nýsköpun í sínum fiskiflota, — að fá sér togara, bæði nýbyggða og einnig gamla. Hafa þeir keypt skip frá Íslandi og einnig frá Bretlandi. En það skapast eitthvert millibil hjá okkur, sögðu þeir, þar sem við verðum mjög nauðulega staddir, áður en við getum notið góðs af þeim fiskiskipum, sem við ætlum að eignast og reka frá Færeyjum. Lögðu þeir ríka áherzlu á, að þeir fengju fyrst um sinn einhver takmörkuð réttindi við Ísland. Varð það úr, í samráði við íslenzku ríkisstj., að lýst yrði yfir af hálfu íslenzku nefndarmannanna, að fyrst um sinn skyldu þeir hafa áfram þau réttindi, sem bundin væru við útgerð opinna báta þeirra hér við land og útgerð gömlu þilskipanna, með eða án gangvéla. Hins vegar var í þessu máli óafgert um till. af okkar Íslendinga hálfu, sem settar voru fram í öndverðu, að Íslendingar fengju til sinna umráða og í sínar hendur á Íslandi þau fornrit íslenzk, sem sérstaklega eru í Árna Magnússonar safni, og forngripi ýmsa, sem Íslendingar telja sig eiga a.m.k. fullkominn siðferðislegan rétt til að fá til Íslands, því að þar séu þessir gripir og handrit bezt komnir, einmitt í sambandi við þann eina háskóla á Norðurlöndum, sem heldur uppi alveg sérstakri kennslu í íslenzkum fræðum, — á því sama máli sem hin gömlu handrit voru skrifuð á sínum tíma. Einmitt þau handrit, sem borið hafa út álit Íslands og Íslendinga um heim allan fyrir þau miklu afrek, sem þar hafa verið innt af höndum af höfundanna hálfu.

Einnig höfðum við íslenzku samninganefndarmenn uppi þær óskir, að Íslendingar fengju rétt — við skulum segja svipaðan og Danir hafa nú — til fiskveiða við Grænland. Ekki var hægt að ákveða neitt um þetta frá Dana hálfu, en tilmælum um þetta var beint til dönsku stj. af nýju. Og við íslenzku nefndarmennirnir beindum því til íslenzkra stjórnarvalda að athuga, hvort hægt væri að mæta óskum Færeyinga um takmarkaðan og tímabundinn rétt þeirra til fiskveiða við Ísland. Nú er okkur í samninganefndinni kunnugt, að eftir því sem á leið viðtölin óx góður vilji af hálfu Dana til þess að mæta réttlátum óskum Íslendinga. Og það er meira en það, að við yrðum þessa varir meðan samningar stóðu yfir, því að samstundis þegar samninganefndarmenn komu heim til Danmerkur, létu þeir hafa eftir sér, a.m.k. sumir hverjir, ákveðnar óskir til stuðnings því, að Danir yrðu við réttmætum og eðlilegum kröfum Íslendinga að því er snertir endurheimt hínna fornu skjala og dýrgripa. Mér er sjálfum persónulega um það kunnugt, eftir að hafa fengið bréf frá einum samninganefndarmanna úti í Danmörk, manni, sem mjög er líklegur til að hafa veruleg áhrif á gang málsins meðal danskra stjórnmálamanna, að þetta mál verður tekið upp af nýju. Og þessi maður telur góðar líkur á því — þó að hann geti ekkert fullyrt —, að það verði vel tekið á óskum okkar Íslendinga í þessu efni.

Endurheimt íslenzkra skjala kemur að sjálfsögðu ekki öðruvísi en óbeint við því máli, sem hér liggur fyrir. En samt álít ég, að þó að við viljum ekki setja það neitt í samband við fiskveiðaréttindi Færeyinga, tímabundin og takmörkuð, að ekki sé vafi, að viðhorf okkar til þess máls hafi beint eða óbeint áhrif gagnvart niðurstöðu Dana um að verða við heitustu ósk Íslendinga í sambandi við skilnað landanna. Þegar brbl. þau, sem nú liggja fyrir, komu til athugunar í allshn., fannst okkur sjálfsagt að nota það tækifæri, sem fyrir höndum var, til þess að lögbinda það samkomulag, sem gert var milli íslenzku og dönsku nefndarinnar um niðurfellingu gagnkvæmra réttinda eftir sambandsl., og setja ákvæði um þá menn, sem áður höfðu öðlazt þennan rétt, á hvaða hátt þeir gætu haldið þessum rétti í báðum löndunum. Að sjálfsögðu ræða brtt. okkar ekki um annað en það, sem snýr að Íslendingum um rétt Dana á Íslandi. Það er tryggt með samkomulagi fulltrúa allra stjórnmálaflokka beggja landanna, í fullu samræmi við ríkisstj. þeirra, að málið verður afgr. nákvæmlega á sama hátt í báðum löndunum. Okkur í allshn. fannst því eðlilegt að koma inn í þessi brbl. því atriði, sem samkomulag hefur orðið um í samningunum um gagnkvæma réttinn, niðurfellingu hans eftir 6. marz 1946 og reglur, sem gilda ættu um þá, sem áður höfðu öðlazt þennan rétt. Fyrir því höfum við gert till. um nýja gr., sem verði 1. gr. og breyti þeim l., sem áður giltu um takmarkaðan tíma, nr. 18 frá 1944, sem ég minntist á í upphafi ræðu minnar. Samkv. okkar fyrstu brtt. var það þannig, að þeir, sem ríkisborgararétt hafa öðlazt samkv. reglum, sem giltu fyrir 9. apríl 1940, eftir að við tókum í okkar hendur öll mál og „faktískur“ skilnaður varð milli landanna, — og þeir, sem hafa öðlazt hann síðar og búsettir voru hér 5. marz 1946, skyldu halda honum. En eins og ég áður sagði, er skurðarpunkturinn nú, að þeir, sem búsettir hafa verið tíu ár fyrir þann tíma, skuli, þegar þeir dvelja hér á landi, njóta jafnréttis við íslenzka ríkisborgara, er þeim var tilskilið í 6. gr. sambandslaganna frá 1918. M.ö.o.: Þeir menn danskir, sem síðustu tíu ár, eða frá 5. marz 1936 til sama dags 1946, hafa verið búsettir hér á landi einhvers staðar og einhvern tíma á þessu tímabili, — ég undirstrika orðið búsettir, — þeir halda áfram réttindum sínum, þegar þeir eru búsettir á Íslandi. Þetta nær að sjálfsögðu ekki til danskra gesta, sem heimsækja okkur um lengri eða skemmri tíma, heldur til þeirra Dana einna — og þá var einnig átt við Færeyinga, þegar samningar voru á döfinni. Enginn Dani — þar með faldir Færeyingar eins og nú standa sakir —, sem tekur sér hér búsetu eftir 5. eða 6. marz 1946, öðlast þessi gagnkvæmu réttindi. Í reyndinni verður þetta tiltölulega lítill hópur manna, sem öðlast þessi réttindi, því að fjöldinn allur af þeim, sem hingað komu, bæði Danir og Færeyingar, voru hér án þess að eiga búsetu. Ég vildi þess vegna vænta, að um þetta yrði enginn ágreiningur, ekki sízt þar sem samningar eru „faktískt“ gerðir um þetta milli danskra og íslenzkra stjórnarvalda í samráði við ríkisstj. beggja landanna í utanríkismálanefnd.