07.10.1946
Neðri deild: 12. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

2. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Að nokkru leyti hefur hv. þm. Borgf. tekið af mér ómakið í málflutningi um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það virðist svo sem hér eigi að fara fram — eða verði að fara fram — málflutningur bæði af hendi Dana og Íslendinga. Að vísu er hér ekki Dani til andsvara, og verður einhver að tala fyrir þá. Mér skilst, að frsm. hafi tekið að sér það hlutverk. Að vísu hefur það ekki verið ætlun hans að halda fram rétti Dana hér, heldur að skýra frá því, hvernig Danir litu á þessi mál, en að nokkru leyti kemur það fram á þskj. 48, að þessum málum er blandað saman. Það er atriði út af fyrir sig, hvernig ganga eigi frá viðskiptum Dana og Íslendinga í þessum efnum, þegar skilnaðurinn yrði á kominn, og það má segja, að það séu mál, sem fljótlega verði komizt út af með samkomulagi, og að nokkru leyti, að samningan., sem um þessi mál hefur fjallað, hafi tekizt — að vísu ekki til fullnustu — að koma því í höfn að vilja Íslendinga. Það hefur ávallt komið fram, þegar þessi mál hefur borið á góma, að þetta var mál, sem þurfti að leysa og einhverjar takmarkanir að hafa, og má segja, að það, sem stungið er upp á hér, geti gengið, sem sé að miða við búsetu og líka að miðað sé við fasta búsetu, en ekki bráðabirgðabúsetu manna, sem vinna fyrir launum hér á landi við ýmiss konar atvinnu, danskir menn og Færeyingar. Það er ekki mikið deilt um þetta, því að þetta er sérstakt atriði, og frv. sjálft er einmitt um þetta atriði, það atriði, sem eitt kemur til mála, hvernig eigi að leysa þennan sameiginlega aðgangsrétt, sem er í samningum frá 1918. En svo er öðru blandað inn í, en það er hinn danski ríkisborgararéttur, danskur ríkisborgararéttur Færeyinga, og mér er óskiljanlegt, hvernig á þessu stendur, því að Færeyingar eru danskir ríkisborgarar, en þá fyrst ber að semja við Færeyinga, þegar þeir eru þjóðréttarlega jafnréttháir Íslendingum, — en að Danir beri fram þær óskir, sem varða Færeyinga, verður í hæsta máta óviðkunnanlegt, ef Íslendingar ættu að taka tillit til þess, þegar liggur við borð, að Færeyingar fari úr sambandinu við Dani. Danskir ríkisborgarar verða að sætta sig við að vera teknir eins og þeir eru. Það má einnig benda á það, að sérréttindi Færeyinga hér ern að verða mjög varhugaverð, og hefur verið bent á það hér, að þau gætu dregið þann dilk á eftir sér, sem yrði mjög hættulegur fyrir íslenzka ríkið.

En ég veit ekki til, að þessir aðilar, atvinnurekendur, sem sérstaklega koma þarna að málum, útvegsmenn og sjómenn, hafi verið spurðir áður en þetta ákvæði var sett inn, fyrst og fremst í samningum við Dani, og þá enn síður komið því í frumvarpsformi hér inn á Alþ.

Það er mín skoðun, að um þetta megi ekki semja nú, og þess vegna komi ekki til mála, að þeir, sem hafa sömu skoðun og ég, fari að löggilda þetta þegar í stað með því að samþ. það á Alþ.

Það er óviðkunnanlegt, að hv. frsm. skuli láta tefja sig svo, að hann megi ekki vera að að hlusta á mál manna, og vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann sjái svo um, að hv. frsm. sé í d., meðan umr. fara fram.

Hv. frsm. hefur væntanlega heyrt, að ég var kominn að því atriði, sem snertir Færeyinga. En ég taldi óhæfilegt að gera sérsamninga við þá öðruvísi en sem danska ríkisborgara, þangað til þeir sjálfir svara fyrir sig. Þó keyrir um þverbak í þessu atriði, þegar það kemur fram, sem hv. frsm. bar fram, og er að skilja sem hann beri það fram fyrir hönd allshn., að í rauninni ætti að vera samband á milli þessa máls, Færeyingamálsins, og annars máls íslenzks, sem er þessu óskylt og óviðeigandi að blanda því saman við þetta atriði og goðgá í nál., að það er tekið þarna með, það er hið svonefnda handritamál. Það mál er frá upphafi þannig vaxið, að engir ábyrgir menn af Íslands hálfu hafa leyft sér að blanda því saman við önnur mál, samningsatriði um hagsmuni Dana og Íslendinga. Það er því óviðkomandi og óviðeigandi, að Íslendingar taki það fram, að það geti komið á nokkurn hátt til mála, að það verði samið um það að skipta á þessum réttindum og hinum gömlu handritum, þar skiptir allt öðru máli. Ég hélt satt að segja, að það mundi aldrei koma til, að því yrði blandað saman. Og ef það er tilgangurinn, að réttur Færeyinga skuli standa, þangað til öllum slíkum samningum er lokið, þá er farið að klúðra málið og gera það að fjandskaparmáli milli þjóðanna og óleysanlegu máli, og hugsanlegt er, að málið gæti þá tekið á sig þá mynd, að menn færu að semja um þetta fiskveiðamálefni sem fríðindi eða gjöf, sem kæmi á móti fríðindum eða gjöf.

Handritamálið, sem svo hefur verið kallað, það hefur verið og er svo fjarstætt því að vera samningsatriði gegn lengri réttindum hinnar þjóðarinnar, að slíkt getur ekki komið til mála. En úr því farið er að tala um handritamálið og því óleyfilega blandað saman við þetta, þá er rétt að taka það fram, að því hefur ævinlega í samningagerðum verið haldið einu og sér. Í samninganefndinni 1938–1939 var því haldið sér, og þá var þetta flutt þannig, að ekki var aðeins um að ræða handritin í þrengri merkingu, heldur var þar einnig um að ræða gripi, bæði handrit og bækur eða forngripi, sem í Danmörku hafa verið, og það hefur ævinlega verið talað um þessa gripi og þessi handrit, án þess að þeir yrðu nokkurn tíma eign Dana eða gjöf þeirra. En nú sé ég í nál. um þetta mál (fiskveiðaréttinn), að handritamálinu er þar blandað inn í, og hv. frsm. minntist á það, að það væri mjög líklegt, að það geti haft sin áhrif á handritamálið, hvernig tekið yrði á óskum Dana fyrir hönd Færeyinga. Hv. frsm. virðist ekki hafa hugsað sína hugsun til enda, vegna þess að þá er meira en vafasamt, hvort Danir mundu virða það svo mikils, þó að við færum bónarveg að þeim í handritamálinu og Færeyingar fengju sínar kröfur að einhverju leyti uppfylltar. Við Íslendingar þekkjum vel, hvernig okkar ágætu vinir í Danmörku hafa snúizt eftir ýmsum þeirra geðþótta, — og er víst, að Danir væru svo áhugasamir um rétt Færeyinga, ef Færeyingar skildu við þá? Ég held að fyrir Dönum vaki og hafi vakað allt annað í handritamálinu. Það eru þeirra eigin andlegu hagsmunir, menningarhagsmunir, sem þeir hafa og gætt viðvíkjandi ýmsum gersemum, sem liggja í Danmörku, en eru okkar eign, — en það á ekkert skylt við fiskveiðaréttinn. En þetta kemur auðvitað ekki í veg fyrir það, að við höldum þessum handritakröfum áfram, og menn ræða um það, að við höfum þar þó alltaf einhvern rétt, — siðferðislegan rétt. En nú vita allir, sem þekkja réttarhugtök, að það er sá réttur, sem lengst má teygja, og það er mikið vafamál, hvort slíkan rétt sem þennan á að kalla siðferðislegan rétt, þ.e. þjóðlegan, menningarlegan rétt. En þessi réttur var oft áður sá eini, sem við gátum byggt á í deilum okkar við Dani. En lagalegi rétturinn var þá langþyngstur á metunum, — sá þjóðréttarlegi, lagalegi réttur, og svo mun einnig verða hér. Nú hef ég látið í ljós skoðun mína á málinu — á þessu stigi.

Þetta er 2. umr., og að sjálfsögðu verður tími til þess til 3. umr. að gera frekari gangskör að þessu, þótt eitt og annað sé komið í nál., og ef mönnum sýnist, þá gefst nægur tími til lagfæringa, á málinu, þó að því eigi að ljúka með einhverjum hætti, áður en aukaþinginu slítur. Ég tel því að svo vöxnu máli ekki þörf á að ræða frekar um þetta og mun ekkí blanda handritamálinu meira inn í þetta mál. Það er svo stórt mál, að það þyrfti nokkra daga til þess að ræða um það, ef Íslendingar eiga að rökræða það, hve langt þeirra réttur nær í því efni.