07.10.1946
Neðri deild: 12. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

2. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Pétur Ottesen:

Ég benti á þrjú atriði, sem eru varhugaverð. Ég vil endurtaka þau, af því að hv. 1. þm. S.-M. var ekki viðstaddur. Ég benti á, að þýðing handfæraveiða yxi hér mjög við friðun, og við vitum, að eftir langa baráttu opnast möguleikar til þess, að stærstu flóar verði friðaðir. Þess vegna eru ekki sambærilegar handfæraveiðar hér áður fyrr rr og veiðar nú á tímum. Við höfum ekki heldur barizt fyrir friðun til þess, að samkeppni yrði boðíð hér heim, heldur fyrir hagsmunum Íslendinga. — Í öðru lagi benti ég á, að með þessu móti gætu aðrar þjóðir heimtað sams konar réttindi hér, og yrði þá að semja við þær. Og í þriðja lagi, með óbreyttri þjóðréttarlegri skipan í Færeyjum, hafa Danir sama rétt, og er þeim auðvelt að gera samning við Færeyinga að setja danskt fjármagn inn í þeirra útgerð og nota þetta sér til framdráttar hér við land. Hv. frsm. hefur gert lítið úr þessu, en þessar ástæður allar eru mjög veigamiklar, og það kemur mér undarlega fyrir sjónir að tala um varfærni, en vilja svo opna möguleika til þess, að við seljum mikilsverðan rétt í þessu efni. Því hefur verið haldið fram, að við ættum að greiða fyrir friðsamlegum málalokum með því að veita fiskveiðaréttindi, sem henti Færeyingum, en Danir hafa alla möguleika að nota þetta. Það þarf ekki að minna á, að fyrst þurftum við að setja takmarkanir í löggjöfina til að torvelda Dönum dragnótaveiði þeirra hér við land. Það er undarlegt, þegar við erum lausir við þessa hættu, að ætla strax að binda okkur við hluta þeirrar hættu, sem getur orðið stór og náð víða. Þess vegna vil ég brýna ýtrustu varfærni fyrir mönnum, því að þótt þetta sýnist lítið, megum við ganga út frá, að þetta geri okkur mikla erfiðleika.

Hvað það snertir, að hv. frsm. taldi öruggt til að tryggja gott samkomulag að veita þessi réttindi, er það að segja, að þá mun síðar rísa alda ósamkomulags, ef við vildum losna við þetta. Þess vegna er allur varinn góður.