08.10.1946
Neðri deild: 13. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

2. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti, —- Ég skal fyrst og fremst leyfa mér að láta þá skýringu fram koma út af 1. gr. frv., eins og það liggur fyrir, að gefnu tilefni út af bókun, sem fram fór í samningan. milli Dana og Íslendinga, að það er að sjálfsögðu ljóst, að þeir menn danskir, sem eftir ákvæðum gr. eiga , að njóta jafnréttis, hafa að sjálfsögðu rétt til þess að koma hingað og njóta jafnréttis, ef þeir vilja hingað flytjast. Þetta vil ég taka fram, þó að þess ætti ekki að þurfa, en það er aðeins út af bókuninni, sem fram fór í samningan., sem ég geri það.

Þá vil ég út af brtt. hv. þm. Borgf., sem hann nú gerði grein fyrir, leggja hér fram aðra brtt., sem við hv. þm. Snæf. flytjum, um það, að niðurlagsorð í 2. gr., „þar til samningum er lokið“, falli niður. Mér skilst margir setja það fyrir sig, að ef þessi orð standa þarna, mundu Danir geta haldið samningum áfram svo og svo lengi, og haldist þá áfram það ástand, sem l. skapa. Ég vildi þess vegna leggja þetta til til samkomulags við raddir þær, sem heyrzt hafa frá hv. þm. Við hv. þm. Snæf. höfum rætt við þriðja nm., hv. 1. þm. S.-M., sem einnig átti sæti í n., og hann var fyrir sitt leyti sammála þessari breyt. á gr. Vænti ég því, að hv. þm. geti fallizt á að afgreiða frv. með þessari breytingu. Ég vil því leyfa mér að afhenda hæstv. forseta hana.