09.10.1946
Efri deild: 14. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

2. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Allsherjarnefnd hefur haldið einn fund um þetta mál og athugað það. Leggur nefndin til, að frv. verði vísað til 3. umr . óbreyttu.

Í frv. er um tvö atriði að ræða, sem varða réttarstöðu þeirra Dana, sem hér voru búsettir fyrir 10 árum eða á undanförnum 10 árum. Er ætlunin sú, að þeir haldi þeim rétti, meðan þeir dveljast hér, í samræmi við ákvæði 6. gr. sambandslaganna. Þetta atriði er í raun og veru í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar til bráðabirgða, sem fjallar um kosningar til Alþingis, að gert er ráð fyrir, að danskir ríkisborgarar, sem byggju hér, héldu þeim réttindum, er getur í 6. gr. sambandslaganna, unz samningum milli ríkjanna væri lokið.

Ekki er gert ráð fyrir áframhaldandi rétti fyrir þá, sem hafa orðið búsettir á síðustu 10 árum. Í lögum nr. 18 1944 eru ákvæði varðandi það, sem um getur í stjórnarskránni. Sams konar rétt og í lögum nr. 18 1944 er um að ræða í 1. gr. þessa frv., sem gert er ráð fyrir, að komi í stað 1. gr. laga nr. 18 1944. Má segja, að þetta sé beint framhald laganna frá 1944. Nú er gert ráð fyrir, að þeir, sem búsettir voru á síðustu 10 árum, haldi þessum rétti, og ég fullyrði, að það er hvorki ósanngjarnt né varhugavert. Það, sem segir í 1. gr., var ætlazt til, að gilti, og fyrir liggur vitneskja um að láta sams konar ákvæði gilda í Danmörku varðandi Íslendinga, sem þar eru búsettir. Hafa þeir og skuldbundið sig til þess. Er þess vegna enn frekari ástæða til að halda þessum rétti, og er það eðlilegt.

Annað atriði er um fiskveiðaréttindi danskra ríkisborgara hér við land. Er nú. ákveðið, að þau haldist, hvað snertir rétt Færeyinga, svo sem segir í 2. gr. frv. Var farið fram á af Íslands hálfu að fá veiðiréttindi við Grænland í staðinn, en á það vildu Danir eigi fallast, og varð því ekki af samningum. Íslenzk stjórnarvöld munu hafa heimilað þennan rétt, sem um ræðir í 2. gr. frv., og er eðlilegt, að hann haldist. Var þetta samþ. við 8. umr. í Nd. með þeirri takmörkun, að rétturinn næði aðeins til ársloka 1947. Er því ekki að neita, að nokkur hætta hefði verið á ferðum, ef tímatakmörkin hefðu verið óákveðnari, en eins og nú er um búið, var nefndin sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt.