07.10.1946
Neðri deild: 12. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

4. mál, rannsóknarstofnun í búfjármeinafræði

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. — Ég vildi í örfáum orðum gera nánar grein fyrir því, hvers vegna ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, heldur en fram kom í ræðu hv. frsm. Þetta frv. er að uppistöðu til brbl., sem hæstv. ríkisstjórn hlutaðist til um, að sett væru milli þinga, og er það hluti af stórmáli, sem lá fyrir s.l. þingi. Frv. til l. um atvinnudeild háskólans, og menntmn. Nd. fjallaði allmikið um. Í því frv., sem við fjölluðum um í fyrra, var gert ráð fyrir því að leggja atvinnudeild háskólans, sem svo er nefnd í l., undir yfirstjórn háskólaráðs og innlima hana að fullu í háskólann, og þá hlaut tilraunastöðin á Keldum að fylgja með. Samt voru uppi till. um það að skilja hana frá atvinnudeildinni og láta hana lúta yfirráðum læknadeildar háskólans. Ég mælti gegn því, þegar þetta mál var hér til athugunar á fyrra þingi, að láta tilraunastöðina á Keldum lúta yfirráðum læknadeildar, en taldi eðlilegast, að hún lyti atvinnudeildinni, þar sem hún á að fjalla um búfjársjúkdóma, en ekki læknavísindi. Nú liggur málið svo fyrir, að hér er um að ræða hluta af þessu stórmáli, þar sem ekki er gert ráð fyrir að breyta skipan atvinnudeildarinnar frá því, sem hefur verið, en sett brbl. um þetta atriði vegna nauðsynjar varðandi það, að stofnunin rísi upp. Nú telur meiri hl. menntmn. sjálfsagt að fylgja því fram, sem till. voru uppi um á fyrra þingi, að tilraunastöðin lúti læknadeild háskólans. Og er það m.a. vegna þess, að gjöf sú, sem Rockefellerstofnunin lætur af hendi til þess að koma þessari rannsóknarstofnun upp, er bundin því skilyrði, að hún verði í tengslum við Háskóla Íslands. Þá var aðeins um tvennt að velja, annaðhvort að stofnunin starfaði um skeið í tengslum við háskólanum án þess að binda hana við læknadeildina, eða binda hana læknadeildinni, eins og gert er ráð fyrir með till. meiri hl. n. Ég tel ekki óhugsandi að hverfa að því ráði, sem till. voru uppi um á fyrra þingi, að leggja atvinnudeildina undir yfirstjórn háskólaráðs, og væri þá eðlilegt, að rannsóknarstöðin fylgdi með, er að því kæmi. Ég hefði heldur kosið þann hátt á hafðan nú að láta vera að ákveða í þessum l., að rannsóknarstofnunin skuli lúta yfirstjórn læknadeildar og vera skilin frá atvinnudeildinni, eins og hún starfar nú. Ég hef því ekki talið mig geta staðið að till. í fyrsta tölulið í brtt. n. á þskj. 46, og mun ég ekki greiða atkv. um hana, en mun hins vegar láta hana afskiptalausa og styðja málið í heild.