08.10.1946
Efri deild: 13. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

4. mál, rannsóknarstofnun í búfjármeinafræði

Bjarni Benediktsson:

Mál þetta hefur nú tekið allmiklum breytingum frá því það var lagt fyrir þessa hv. deild sem staðfesting á brbl., sem ríkisstj. gaf út síðastl. sumar. En þótt ég sé feginn þessum breyt., sýnist mér sum ákvæði frv. þurfa nánari breyt. Það var einkum tvennt, sem ég vildi minnast á. Í fyrsta lagi vildi ég benda á, hvort það gæti staðizt í samræmi við almenna launalöggjöf, að forstöðumaður þessarar stofnunar hafi sömu launakjör og prófessorar við háskólann. Mér sýnist, að forstöðumaður slíkrar undirstofnunar ætti að hafa laun, sem væru a.m.k. einni gráðu neðar en laun forstöðumannanna sjálfra, og vildi beina því til n., hvort gerlegt væri, að maðurinn væri færður í lægri flokk, en vil taka það fram, að ég segi þetta ekki af því, að ég vilji ganga á hlut þess manns, sem hér um ræðir, en mér sýnist vanta í þetta samræmi, og eðlilegra þykir mér, að prófessorar séu ofan við þá menn, sem vinna við undirstofnun. Mér sýnist, að þessi maður ætti að hafa sömu laun og dósentar. Þetta er annað atriðið. — Hitt atriðið er um það, hvort eðlilegt sé að láta opið fyrir ríkisstjórnina að skipa svo marga sérfræðinga við þessa stofnun eins og hún telur rétt á hverjum tíma. Mér sýnist eðlilegt að lögbinda einhverja tölu sérfræðinga, t.d. dýralækna, sem þangað mætti skipa og ekki væri hægt að fjölga, nema l. kæmu til. Menn muna það, sem skeði við guðfræðideildina fyrir 1–2 árum, og menn voru óánægðir með þá ákvörðun, sem þar var tekin. Hitt er óeðlilegt, ef hægt á að vera að fjölga embættismönnum, án þess að spyrja um leyfi. Sama er með norrænudeild háskólans. Þar fjölgar úr hófi, og er það sízt til eftirbreytni, þó að með samþykki Alþingis sé, en ég efast ekki um, að ef ráðh. hefði mátt ráða, þá hefði fjölgunin orðið miklu meiri. Það hefur verið barizt á móti því, að dýralæknar væru settir hér á landi, t.d. á Snæfellsnesi og víðar þar, sem þörf er á þeim, og hefur verið talið sjálfsagt, að Alþingi réði, hvar dýralæknar væru settir og hve margir þeir væru, en samkv. þessu á ráðh. að hafa heimild til að skipa svo marga dýralækna sem honum þóknast. Það er í samræmi við venju Alþingis, að sérfræðingar fái embætti sín frá því, en ráðh. hafi ekki heimild til að stofna svo margar stöður sem honum þóknast.

Ég held, að þessi atriði þurfi athugunar við, og vildi benda á, hvort n. vildi ekki taka þetta til athugunar. Ég veit, að margir mikilsmetnir menn í Nd. eru mér sammála, og ég efast ekki um, að sú breyt., sem gerð yrði á síðara atriðinu, sem ég nefndi, mundi mæta þar velvild og skilningi. Ég vildi beina því til n. og sérstaklega til hins ágæta form. hennar, hvort ekki væri hægt að taka málið út af dagskrá og athuga þetta. Þá yrði málið tekið fyrir á morgun, og yrði hægt að bera fram brtt. við það. Ef n. sæi sér ekki fært að bera fram brtt., mundi ég þá gera það.