08.10.1946
Efri deild: 13. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

4. mál, rannsóknarstofnun í búfjármeinafræði

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Það er nú að vísu mjög gleðilegt fyrir okkur stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. að heyra hið góða álit, sem þm. 1. þm. Eyf. (BSt) hefur á þessari góðu ríkisstj., og hefði þó stuðningur hans og traust verið betur séð fyrr en á dauðastund hennar, en ef til vill er viðhorf hans svo breytt nú, af því að bann býst við einhverju öðru, sem okkur er ekki jafngeðþekkt.

Ég vil benda á það, að það er mishermi, að hæstv. landbrh. hafi nokkuð um þetta mál fjallað, og þess vegna skiptir það engu máli, hvaða upplýsingar hann hefur gefið um þetta mál. Eftir bókstaf frv. er menntmrh. fengið um þetta takmarkalaust sjálfdæmi, og yfirlýsingar hæstv. landbrh. í þessum efnum hafa þess vegna ekki frekari þýðingu en yfirlýsingar páfans eða einhverra annarra stórmenna. — Ég vildi spyrja að því, hvort fyrir finnist mörg lagaboð um hálaunaðar stöður, þar sem ráðh. er fengið jafnótakmarkað vald og með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég veit, að þegar um lægri stöður er að ræða, er þetta nokkuð á valdi framkvæmdavaldsins, en hvað snertir æðri stöður, t.d. sérfræðinga, dýralækna, efnafræðinga og annarra hálærðra manna, þá hefur ekki verið unnt að komast hjá að greiða þeim mönnum, sem slíkar stöður skipa, mjög hátt kaup, til þess að þeir haldist við í þeim. Ég þekki ekki mörg lagaboð, þar sem ráðh. — án afskipta þingsins — er fengið slíkt takmarkalaust vald og hér er um að ræða, og ég held, að slíkt sé einsdæmi eða því sem næst, og virðist mér vera stefnt inn á mjög svo varhugaverða braut í þessum efnum. — Það þýðir lítið að hampa því framan í mig, að þessi gjöf gangi okkur úr greipum, ef við látum frv. fá eðlilega málsmeðferð, því að mér virðist gjöfin gefi ekkí svo mikið af sér, að hún standi undir að greiða mörgum hálærðum mönnum kaup, því að þeir mundu ekki hafa undir 30 þús. króna í árskaup með núverandi verðlagi, og þegar aukavinna hefur bætzt víð, nálægt 40–50 þús. króna, ef ég þekki kröfur manna nú á dögum, ekki sízt, þegar þessi stofnun er fjarri bænum og kosta verður ferðirnar þangað, svo að ég fullyrði, að mínar tölur í þessum efnum geta staðizt. — Ég er ekki að hafa á móti þessu máli og sízt þeim ungu mönnum, sem þarna eiga að starfa, en álít, að rétt sé fyrir hv. Alþ. að sleppa ekki fram af sér sinni ábyrgð. — Ég veit, að hv. l. þm. Eyf. heldur, að allt sé að hruni komið, en okkur öðrum finnst ekki eins ískyggilega horfa, og er því eðlilegt að hafa þetta í svipuðu formi og löggjafinn hefur fram að þessu ákveðið.

Vil ég leyfa mér hér að bera fram brtt. við 3. gr. frv. um, að gr. orðist svo:

„Menntmrh. heimilist, að fengnum tillögum læknadeildar, forstöðumanns og yfirdýralæknis, að ráða til stofnunarinnar dýralækna og sérfræðinga, eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum hverju sinni.“

Þarna er ráðgert, að hv. Alþ. áætli, hversu miklu fé stofnunin verji til að launa aðstoðarmennina, og ráðh. heimilt að ráða þá innan þeirra marka, sem hæfileg eru, og eðlilegum löggjafarreglum þar með fylgt. Hins vegar hvíldi of mikil ábyrgð á læknadeildinni, ef þetta væri aðeins undir samþykkt hennar komið, og er eðlilegt, að slíkt heyri undir Alþ., sem á undir henni að standa samkv. stjskr. landsins.